Fara í efni

Heimsókn kennara af hársnyrtiiðn til Þrándheims

 

Dagana 4. - 7. september fóru tveir kennarar af hársnyrtiðn, þær Harpa Birgisdóttir og Hildur Salína Ævarsdóttir, til Þrándheims til þess að heimsækja hárgreiðslustofur og afla fleiri sambanda í því skyni að auka möguleika nemenda til þess að taka hluta sinnar starfsþjálfunar í Þrándheimi. Þessa dagana eru tveir nemar hársnyrtiiðn í VMA, Íris Birna Kristinsdóttir og Kristjana Lóa Sölvadóttir, í starfsþjálfun á hárgreiðslustofum í Þrándheimi í Noregi. Þær verða þar ytra í sex vikur. Harpa og Hildur hittu þær Írisi og Kristjönu og heimsóttu einnig stofurnar sem eru með þær í starfsþjálfun. Íris er í starfsþjálfun á Påhåret Solsidan og Kristjana á Jakobsli. Samstarf VMA við hárgreiðslustofur í Þrándheimi má segja að hafi hafist í framhaldi af samstarfsverkefnum sem skólinn vann með framhaldsskólanum Charlottenlund í Þrándheimi. Að baki liggur sú hugmynd að nemendur taki hluta af sínu starfsnámi utan landsteinanna og fái þannig tækifæri til þess að víkka út nám sitt og fá nýjar hugmyndir. Harpa og Hildur fóru einnig í heimsókn í Charlottenlund skólann þar sem þær áttu spjall um fagið við norska kollega sína.