Fara í efni

Heimsókn í Textílmiðstöðina á Blönduósi

Nemendurnir sex með Ínu kennara og Margréti.
Nemendurnir sex með Ínu kennara og Margréti.

Síðastliðinn föstudag fóru sex nemendur á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA með kennaranum sínum, Borghildi Ínu Sölvadóttur, í heimsókn í Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi og fengu að nýta tækjabúnað sem þar er í boði og kynna sér starfsemina. Heimsóknin var mjög vel heppnuð og fróðleg fyrir nemendur og vilja þeir koma á framfæri þökkum til Textílmiðstöðvarinnar og Margrétar Katrínar Guttormsdóttur, sem hefur umsjón með Textíl Lab smiðju miðstöðvarinnar, fyrir mjög góðar móttökur.

Á liðinni haustönn voru þessir nemendur á textíllínu, sem eru nú í vor að ljúka öðru námsári sínu, í áfanganum Tauþrykk og taulitun hjá Borghildi Ínu og fengu þeir m.a. innsýn í  tæknilausnir og leiser- og vínylskurð í Fab Lab Akureyri.
Núna á vorönn hafa þessir nemendur haldið áfram í áfanga hjá Ínu í Yirborðshönnun þar sem bæði bútasaumur og útsaumur koma við sögu. Liður í þessum áfanga var að fara í heimsókn í Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi og nýta sér tæknina þar í Textíl Lab deildinni, sem hefur yfir að ráða tveimur stafrænum vefstólum, þæfingarvél, stafrænni prjónavél, þrívíddarprentun í textíl, stafrænni útsaumsvél og vinyl- og leiserskurðarvélum. Nemendur undirbjuggu heimsóknina vel með hönnun og forritunarvinnu. Lykla með þessum skjölum tóku nemendur með sér til Blönduóss og keyrðu síðan út úr velbúnaðinum í Textíl Lab. Hér má sjá myndir og myndbönd frá heimsókninni í Textílmiðstöðina.

Borghildur Ína segir mikilvægt fyrir nemendur að kynnast allri þeirri tækni sem er til staðar í textíl, í þessum geira, eins og öðrum, sé þróunin hröð. Ína nefnir að þurrþæfingarvélin í Textílmiðstöðinni sé sú eina á landinu sem almenningur hafi aðgang að. Mikilvægt sé fyrir nemendur að vita af þeim möguleika að nýta sér þennan tæknibúnað þegar komi að því að þeir velji sér viðfangsefni fyrir lokaverkefni í náminu á vorönn 2024.