Fara í efni

Heimsókn frá Frakklandi

Marianne Montaud.
Marianne Montaud.
Þessa dagana er Marianne Montaud, 19 ára frönsk stúlka, í starfsþjálfun í starfsdeild VMA. Heimsóknin er liður í námi hennar í Maison Familiale Rurale í Tour d‘Aigues í Suður-Frakklandi.

Þessa dagana er Marianne Montaud, 19 ára frönsk stúlka, í starfsþjálfun í starfsdeild VMA. Heimsóknin er liður í námi hennar í Maison Familiale Rurale í Tour d‘Aigues í Suður-Frakklandi.

Í skóla Marianne í heimalandinu er lögð mikil áhersla á hverskonar starfsþjálfun eins og í fjölmörgum öðrum skólum af sambærilegum toga í Frakklandi. Þessir skólar eru allir í hinum dreifðu byggðum Frakklands. Skóli Marianne er heimavistarskóli og leggur mest upp úr umönnum fólks í víðum skilningi og eru þar um 300 nemendur, um 190 á framhaldsskólaaldri og 110 eldri nemendur.

Þessi skóli í Suður-Frakklandi hefur áður sent nemendur sína í starfsþjálfun til Íslands og þá hafa þeir alltaf verið í Reykjavík en nú eru þeir bæði í höfuðborginni og á Akureyri – 19 nemendur syðra og 5 á Akureyri.

Til Íslands eru nemendurnir komnir með stuðningi Leonardo menntunaráætlunar Evrópusambandsins en þessir styrkir hafa það að markmiði að styðja við ungt fólk á vinnumarkaði eða ungt fólk sem er á leið á vinnumarkað, auk þess sem styrkjunum er ætlað að styrkja samstarf skóla og atvinnulífs.

Frönsku nemendurnir dvelja hér á landi í mánuð. Auk Marianne eru fjórir kollegar hennar á Akureyri þessa dagana. Einn þeirra kynnir sér starfsemi Rósenborgar, tveir eru í Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og einn í Fjölsmiðjunni.

Marianne lýsir ánægju með dvölina í starfsdeild VMA og nemendur og kennarar deildarinnar eru sömuleiðis afar ánægð með að hafa hana hjá sér þessa daga og veita henni innsýn í starfsemina.

Marianne segir það hafa komið sér skemmilega á óvart hversu opnir allir séu hér og tilbúnir að leiðbeina henni á ýmsan hátt. Þá segir hún það mjög áhugavert og skemmtilegt að starfsdeild skuli vera hluti af svo stórum framhaldsskóla, það fyrirkomulag sé til fyrirmyndar.

Aðspurð segist hún hafa mikinn áhuga á því í framtíðinni að vinna í umönnunarstörfum, ekki síst með fötluðum.