Fara í efni

Heilrakstur í hársnyrtideild

Vandað til verka við raksturinn.
Vandað til verka við raksturinn.
Fimmtu annar nemendur í hársnyrtideild VMA takast á við krefjandi hluti, enda eru þeir á lokasprettinum í námi sínu í skólanum - útskrifast í desember nk. Eitt af þeim námskeiðum sem nemendurnir fara í gegnum er rakstur - raunar eru tvö rakstrarnámskeið á námsskránni - nemendur eru nú að taka síðari námsáfangann í rakstri og liður í honum er að glíma við svokallaðan heilrakstur á módelum. Hér má sjá myndir sem voru teknar við það tækifæri í liðinni viku.
 
Ýmislegt er auðvitað hægt að læra af bókinni en verklegi hlutinn er ekki síður mikilvægur - fátt kemur í staðinn fyrir að munda skærin, hárgreiðuna eða rakhnífinn. Verklegi hlutinn er af ýmsum toga, með með því að fara höndum um módel eða á annan hátt. Á þessari önn býður hársnyrtideildin í þrígang upp á svokallaða stofudaga og eru tveir slíkir dagar að baki en sá þriðji er nk. fimmtudag, 17. nóvember frá kl. 11:30 til 15:30. Boðið verður upp á klippingu, litun, permanent eða rakstur - allt gegn vægu verði. Öllum áhugasömum er bent á að setja sig í samband við nemendur í hársnyrtideildinni á C-gangi skólans til að fá frekari upplýsingar og/eða panta sér tíma.