Fara í efni

Heillandi Stöðvarfjörður

Líf Sigurðardóttir við
Líf Sigurðardóttir við "Súlur við Stöðvarfjörð".

Það kom aldrei neitt annað til greina hjá Líf Sigurðardóttur en að fara á listnáms- og hönnunarbraut VMA og læra grunninn í myndlist. Hún segist hafa teiknað frá blautu barnsbeini og því hafi leiðin snemma verið mörkuð.

Líf fæddist á Akureyri en fluttist með foreldrum sínum á Akranes og þar bjó fjölskyldan næstu árin. Síðan lá leiðin til höfuðborginnar þar sem Líf segist hafa verið í tvemur grunnskólum, fyrstu sex veturna í Langholtsskóla og síðan í sjöunda bekk í Waldorskólanum Sólstöfum. Hún rifjar upp að þar hafi hún endanlega tekið ákvörðun um að læra myndlist því áherslan í skólanum hafi öll verið á sköpun af ýmsum toga, hún hafi verið rauði þráðurinn í gegnum allt nám í skólanum. Í áttunda bekk var Líf í Grenivíkurskóla og síðustu tvö ár grunnskólans var hún í Naustaskóla á Akureyri og þar býr hún nú. „Auðvitað má kannski segja að það hafi ekki verið sérstaklega gott að fara í gegnum svo marga skóla á grunnskólastiginu en hins vegar tel ég að það hafi verið mikilvægur þáttur í að þroskast að hafa búið á mörgum stöðum og kynnst ólíkum skólum,“ segir Líf.

Aftur er vikið að þeirri ákvörðun að fara í myndlistarnám. Líf segir að í sínu tilfelli hafi hjartað ráðið för og það telji hún almennt mikilvægt. „Það hefur lengi heillað mig að geta tjáð mig með list,“ segir hún.

Síðustu daga hefur verið uppi á vegg í VMA – við austurinngang – verk sem Líf gerði á námskeiði hjá Björk Eiríksdóttur þar sem hún blandar saman bleki, akríl og krít. Verkið segir hún að hluta unnið úr þremur eldri myndum sem hún hafi einfaldlega rifið og púslað saman í eina mynd sem hún kallar Súlur við Stöðvarfjörð. Myndefnið er sem sagt fjöllin við Stöðvarfjörð – sá hluti þeirra sem kallast Súlur, sem Líf segir að hafi strax heillað sig þegar hún kom þangað fyrst í heimsókn með kærasta sínum sem er frá Stöðvarfirði.

En hvað ber framtíðin í skauti sér eftir að náminu lýkur í VMA í vor? Því segist Líf ekki geta svarað að öðru leyti en því að til að byrja með sjái hún fyrir sér að fara tímabundið út á vinnumarkaðinn en í framtíðinni heilli að búa erlendis og læra meira í myndlist. „Draumurinn er að reka eigið gallerí og kannski kaffihús til hliðar við það,“ segir Líf og brosir.