Fara í efni

Heillandi heimur

Bergljót Gunnarsdóttir.
Bergljót Gunnarsdóttir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að margir framhaldsskólanemar hafa ekki mótaðar hugmyndir um nám þegar inn fyrir þröskuld framhaldsskólans er stigið í fyrsta skipti. Bergljót Gunnarsdóttir, 21 árs Akureyringur, er gott dæmi um nemanda sem fór í VMA en var afar óráðin í því hvað hún vildi læra.

Bergljót hóf nám í VMA haustið 2013 á svokallaðri brautabrú. Liður í náminu á fyrstu önn var áfanginn náms- og starfsfræðsla sem felur í sér að nemendur sækja ákveðinn fjölda tíma á nokkrum verknámsbrautum VMA og fá þannig sýn á nám í ólíkum iðngreinum. Bergljót segir að þessi kynning á námsbrautum hafi vakið áhuga sinn á annars vegar listnámi og hins vegar rafeindavirkjun. Úr varð að hún ákvað að hefja nám á listnámsbraut VMA og á þeirri braut var hún í tvo vetur. „Ég prófaði ólíka hluti á listnámsbraut en mín niðurstaða var að lokum sú að ekkert í listsköpun og hönnun höfðaði það sterkt til mín að ég vildi starfa við það í framtíðinni. Ég hugsaði því málið og ákvað að lokum að færa mig yfir í rafmagnið. Fór fyrst í grunndeild rafiðna, sem allir nemendur í bæði rafvirkjun og rafeindavirkjun þurfa fyrst að ljúka, og hélt síðan áfram í rafeindavirkjun. Ég er langt komin með námið, er núna á sjöttu önn og stefnan er að útskrifast sem rafeindavirki fyrir næstu jól,“ segir Bergljót.

Í gegnum tíðina hafa strákar verið í miklum meirihluta nemenda í rafeindavirkjun og svo er enn, núna er Bergljót önnur tveggja stúlkna í þessu námi í VMA. Hún segir það mikinn misskilning að þetta nám sé eitthvað meira fyrir stráka en stelpur og hún hvetur kynsystur sínar til þess að gefa þessari námsgrein gaum. „Það er margt við rafeindavirkjun sem heillar og ég fékk brennandi áhuga á þessu eftir að ég fór að vinna hjá fyrirtækinu Tengi við lagningu og tengingu ljósleiðara. Þá opnaðist fyrir mér nýr og heillandi heimur og þá var ég ákveðnari en nokkru sinni fyrr að ég hefði fundið mína hillu í námi. Þessi tækniheimur með tölvum og forritun er heillandi og áhugi minn liggur þar, t.d. hvað varðar að hanna og setja upp vefsíður,“ segir Bergljót.

Margir rafeindavirkjar ljúka einnig stúdentsprófi og segist Bergljót jafnframt náminu í rafeindavirkjun hafa tekið áfanga til stúdentsprófs, enda sé rafeindavirkjunin afar góður grunnur fyrir háskólanám af ýmsum toga. „Rafeindavirkjun er nokkuð krefjandi nám en það er lykilatriði að hafa áhuga á viðfangsefninu. Þetta er afar góður grunnur fyrir fjölmargt og rafeindavirkjar eru eftirsóttir á vinnumarkaði. Að loknu náminu í rafeindavirkjun búst ég við að fara út á vinnumarkaðinn og skoða jafnframt valkosti til frekara náms. Það kemur ýmislegt til greina, til dæmis grafísk hönnun. En tíminn mun leiða það í ljós,“ segir Bergljót.