Fara í efni

Heiður að spila fyrir Íslands hönd

U-19 landsliðið. Bjarki Þór nr. 3 og Gauti nr. 5.
U-19 landsliðið. Bjarki Þór nr. 3 og Gauti nr. 5.
Tveir nemendur í VMA, Bjarki Þór Viðarsson og Gauti Gautason, spiluðu í liðinni viku tvo vináttulandsleiki í knattspyrnu með U-19 landsliði Íslands gegn Norður-Írum. Leikirnir voru spilaðir á Norður-Írlandi. Fyrri leiknum lyktaði með 2-2 jafntefli en Norður-Írarnir unnu síðari leikinn 3-1.

Tveir nemendur í VMA, Bjarki Þór Viðarsson og Gauti Gautason, spiluðu í liðinni viku tvo vináttulandsleiki í knattspyrnu með U-19 landsliði Íslands gegn Norður-Írum. Leikirnir voru spilaðir á Norður-Írlandi. Fyrri leiknum lyktaði með 2-2 jafntefli en Norður-Írarnir unnu síðari leikinn 3-1.

Í báðum leikjunum var Gauti, sem er miðvörður, í byrjunarliði Íslands en Bjarki, sem spilar hægri bakvarðarstöðu, var í byrjunarliðinu í fyrri leiknum og kom inn á í síðari hálfleik í seinni leiknum. Þess má geta að í fyrri leiknum voru þeir einu útileikmenn liðsins í byrjunarliðinu sem ekki eru samningsbundnir erlendum liðum. Báðir spila þeir með KA og þótt þeir séu ungir að árum hafa þeir spilað töluvert með meistaraflokki KA í sumar – auk þess að spila með 2. flokki félagsins. Gauti er fæddur 1996 og Bjarki Þór 1997.

Þessir landsleikir voru liður í undirbúningi U-19 landsliðsins fyrir undankeppni Evrópumótsins  þar sem það er í riðli með Eistlandi, Króatíu og Tyrklandi. Sá riðill verður leikinn í Króatíu í byrjun október. Nú verður spennandi að sjá hvort þeir félagar verða valdir í liðið sem fer til Króatíu.

Báðir hafa þeir félagarnir verið áður í íslensku landsliðstreyjunni og segir Gauti að það sé alltaf jafn skemmtilegt og mikill heiður að fá að spila fyrir hönd Íslands. Hann segir að spennandi verði að sjá hvort þeir verði valdir í liðið sem fer til Króatíu í byrjun október. „Það væri mjög gaman og heiður að verða valinn í liðið í undankeppni Evrópumótsins,“ segir Gauti Gautason.