Fara í efni

Heiða í Unun fer yfir ferilinn

Heiða Eiríksdóttir.
Heiða Eiríksdóttir.

Í dag, þriðjudaginn 25. febrúar kl. 17-17.40, heldur Heiða Eiríksdóttir, tónlistarkona, fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Forvitni og ímyndunarafl.

Heiða mun fjalla um ýmsar aðferðir sem hún hefur beitt í listsköpun sinni í gegnum tíðina og einnig fer hún yfir feril sinn í tónlist og reynir að varpa örlitlu ljósi á það hvernig er að vera sjálfstætt starfandi listamaður á Íslandi.

Í meira en aldarfjórðung hefur Heiða fengist við tónlistarsköpun auk þess að skrifa um tónlist og gera útvarpsþætti. Síðari ár hefur hún einnig lagt stund á myndlist, en hún tók fornám í myndlist í Myndlistaskóla Reykjavíkur. Hún hefur gefið út sólóplötur undir sínu nafni og nafninu Heidatrubador. Einnig hefur hún tekið þátt í útgáfu geisladiska og platna með hljómsveitunum Unun, Heiða og heiðingjarnir, Hellvar, Dys, Ruddinn og Something Else.

Heiða er með BA- og MA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands. Hún er dagskrárgerðarkona á Rás 2 og skrifar um tónlist í Morgunblaðið. Einnig vinnur hún að eigin tónlistar- og myndlistarsköpun.

Fyrirlestur Heiðu er í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestrar, sem eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.