Fara í efni

Hefur verið mjög gaman

Almar Bjarki Atlason.
Almar Bjarki Atlason.

Þá er þetta skólaár á lokametrunum – síðasti kennsludagur er nk. föstudagur. Nemendur vinna kappsamlega að því að ljúka sínum verkefnum – bæði skriflegum og verklegum – áður en prófatörnin hefst í næstu viku.  Eitt af stóru verkefnum vetrarins í byggingadeildinni er smíði sumarbústaðarins, sem stendur norðan við skólahúsið. Nemendur á þriðja ári í byggingadeild hafa í vetur unnið að því að byggja bústaðinn og rafiðnaðarnemar hafa séð um að leggja raflagnir í bústaðinn. Bústaðurinn verður seldur eins og hann stendur þegar skólanum lýkur en þessa dagana hafa nemendur m.a. verið að setja upp eldhús- og herbergisskápa sem smíðaðir voru inni í rými byggingadeildar.

Einn af þeim nemendum sem unnið hafa að byggingu sumarbústaðarins í vetur er Almar Bjarki Atlason. Hann segir að þetta verkefni hafi verið nemendum mjög lærdómsríkt og gott. Af því hafi þeir lært ótal marga hluti, sem muni koma sér vel.

„Á sínum tíma var ég á almennri braut og hafði í huga að fara í kokkanám en niðurstaðan var að fara í þetta nám og ég sé ekki eftir því. Þetta er búið að vera mjög gaman og félagsskapurinn er sérlega góður. Af byggingu sumarbústaðarins höfum við m.a. lært vönduð vinnubrögð, sem er mjög mikilvægt,“ segir Almar.

Að lokinni þessari önn segist Almar fara að vinna á samningi hjá trésmíðafyrirtækinu Trétaki á Akureyri og hann reiknar með því að vinna í hálft annað ár áður en hann kemur aftur inn í skólann og lýkur síðustu önninni og í kjölfarið sé stefnan sett á sveinspróf. En hann reiknar þó með að taka einhverja áfanga í skólanum jafnhliða samningsvinnunni.