Fara í efni

Hefur skrifað á sjöunda hundrað pistla um hús á Akureyri

Arnór Bliki Hallmundsson.
Arnór Bliki Hallmundsson.

Arnór Bliki Hallmundsson kennir samfélagsfræði og upplýsingatækni á starfsbraut VMA. Þetta er þriðji veturinn sem hann starfar við skólann, veturinn 2018-2019 var hann í hlutastarfi sem stuðningsfulltrúi á starfsbraut en frá og með haustinu 2019 hefur hann verið í kennslu. Áður hafði Arnór starfað í nokkur ár í frístund í Oddeyrarskóla á Akureyri.

Arnór Bliki varð stúdent frá MA árið 2005, árið 2008 lauk hann BS-prófi í umhverfisfræði frá Háskólanum á Akureyri og kennararéttindum frá sama skóla tveimur árum síðar. Hann segist alltaf hafa haft áhuga á náttúru sinni og næsta nágrenni. Þessi áhugi hafi kveikt neistann til þess að fara að blogga um hús á Akureyri. Síðustu ellefu ár hefur Arnór Bliki skrifað pistla á bloggsíðu sína um hús á Akureyri. Í það heila segist hann vera búinn að skrifa hátt í sjö hundruð pistla. „Fyrst og fremst er þetta áhugamál mitt, að miðla upplýsingum sem ég gref upp áfram til fólks,“ segir Arnór Bliki og rifjar upp að þessi áhugi hafi fyrir alvöru kviknað eftir að hann flutti með fjölskyldu sinni á Oddeyrina tólf ára gamall framan úr Eyjafjarðarsveit, þar sem hún hafði búið á Kristnesi og í Hrafnagilshverfinu. „Ég komst þá í bókina Oddeyri húsakönnun og hún kveikti áhuga minn á þessu grúski. Ég hafði reyndar alltaf haft mikinn áhuga á grúski af ýmsum toga, landakort heilluðu mig og ég tileinkaði mér nöfn og hæð fjalla,“ segir Arnór.

Hann leitar víða fanga þegar hann skrifar húsapistlana, t.d. í skýrslum um húsakannanir, Akureyrarbók Steindórs Steindórssonar, fyrrv. skólameistara MA og náttúrufræðings, Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason og á Héraðsskjalasafninu er mikill fróðleikur sem nýtist vel, t.d. fundargerðir bygginganefndar, manntöl o.fl. Að ógleymdu Tímarit.is sem er ómetanlegur akur í öllu grúski. Allar myndir af húsum tekur Arnór sjálfur. „Ég tek því fagnandi að fá athugasemdir við þessi skrif mín, oftast er um að ræða viðbótarupplýsingar frá fólki sem þekkir vel til og ég bæti þeim síðan inn í pistlana.“

Sem fyrr segir birtir Arnór pistla sína á eigin bloggsíðu og stundum hafa pistlar hans einnig birst í Vikudegi/Vikublaðinu.

En hefur Arnóri ekki dottið í hug að gefa allan þennan fróðleik út á bók? Jú, segir hann. Fyrir tveimur árum hafi hann skoðað þann möguleika að safna fjármunum á Karolina fund til þess að fjármagna útgáfukostnað. Dæmið hafi ekki gengið upp, enda ljóst að bókin yrði þykk og kostnaðurinn því umtalsverður.

Þrátt fyrir að hafa skrifað þessa húsapistla í rúman áratug er Arnór þó hvergi hættur, enda segist hann eiga eftir að fjalla um ótal mörg og áhugaverð hús á Akureyri. „Í stórum dráttum fjalla ég um eldri hús á Akureyri, sem voru byggð fyrir miðja síðustu öld,“ segir Arnór Bliki.