Fara í efni

Þörf fyrir að skapa

Patrekur Örn Kristinsson.
Patrekur Örn Kristinsson.

Akureyringurinn Patrekur Örn Kristinsson er á síðustu metrunum í námi sínu á listnáms- og hönnunarbraut VMA og stefnir að því að ljúka stúdentsprófinu í vor. Hann sýnir þessa dagana myndverk unnin með blandaðri tækni á vegg gegnt skrifstofu VMA við austurinngang skólans. Í þessum litlu myndum, sem má segja að séu tengdar en þó aðskildar, leikur hann sér með vetrarbirtuna með einskonar flugeldaívafi.

Patrekur Örn segist á sínum tíma hafa horft til þess að fara á tónlistarbraut en þar sem hún hafi ekki verið í boði í VMA hafi lendingin orðið sú að fara á listnáms- og hönnunarbraut. Hann segist um tíma hafa verið mjög áhugasamur um gítarspil, til að byrja með hafi hann aflað sér sjálfur nauðsynlegrar þekkingar og síðan tekið tíma í Tónræktinni. Að undanförnu hafi hann hins vegar lagt gítarinn aðeins til hliðar, tónlistin hafi vikið fyrir myndlistinni.

„Ég hef þörf fyrir að skapa eitthvað og myndlistin er góð leið til þess. Í náminu hér hef ég innan ákveðinna marka fengið frelsi til þess að gera það sem mig langar til og það er mjög mikilvægt og þroskandi,“ segir Patrekur Örn og bætir við að hann sé með í huga að fara í kvikmyndanám erlendis að loknu náminu í VMA. Ekki til þess að gera sínar eigin myndir, miklu fremur til þess að starfa að kvikmyndagerð, hljóðvinnsla heilli hann mest.