Fara í efni

Fantasíuskrifarinn Fjalar Berg

Fjalar Berg Björnsson.
Fjalar Berg Björnsson.

Á sínum tíma var Fjalar Berg Björnsson í tveimur grunnskólum í höfuðborginni en var síðan frá 5. bekk í Giljaskóla á Akureyri og þaðan lá leiðin í VMA. “Aðalástæðan fyrir því að ég valdi að fara í VMA var áfangakerfið. Mig langaði að hafa meiri möguleika á að velja áfanga hér. Ég var fyrsta árið í grunndeild matvælabrautar og sumarið eftir prófaði ég að vinna á veitingastað en komst fljótlega að raun um að ég vildi ekki leggja matreiðslu fyrir mig sem atvinnu. Hins vegar hefur námið í grunndeildinni nýst mér ágætlega því ég hef síðustu þrjú sumur unnið í eldhúsinu á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Ég ákvað eftir fyrsta veturinn í VMA að taka mér pásu í námi en sá fljótt eftir því og kom aftur í skólann eftir haustönnina og fór þá á félagsfræðibraut. Það kom til af því að ég hef lengi haft áhuga á félagsfræði og sálfræði en þó umfram allt heimspeki. Námið hefur nýst mér afar vel, það hefur tvímælalaust opnað mig sem manneskju. Ég viðurkenni fúslega að þegar ég kom í VMA var ég frekar feiminn en námið hefur hjálpað mér að yfirvinna feimnina. Kennararnir hafa hreinlega ýtt á okkur til þess að tjá okkar skoðanir og það finnst mér þakkarvert,” segir Fjalar Berg. Hann mun útskrifast í vor og segir þegar hann horfir til baka að þessi ár í VMA hafi verið hans besti tími í lífinu. “Styrkur skólans hefur mér ekki síst fundist vera góðir kennarar sem eiga auðvelt með að hjálpa fólki að koma út úr skelinni. Mér finnst almennt að nemendur hér fái að vera þeir sjálfir og það er frábært,” segir Fjalar.

En núna, þegar sér fyrir endann á þessum námsáfanga veltir Fjalar vöngum yfir þeim næsta. Hann segist ekki hafa ákveðið hvað verði fyrir valinu en ýmislegt komi til greina. Eitt af því er forritun. Hann segir að í sínum huga sé félagsfræðibraut prýðilegur undirbúningur fyrir forritun, eins og mörg önnur fög, því hún opni leiðir fyrir margskonar nám. Annað áhugavert fag sem Fjalar segir koma til greina er sálfræði.

En áhuginn á skriftum er sannarlega til staðar. Fjalar upplýsir að hann hafi lengi haft áhuga á fantasíuskáldskap. “Ég hef lengi verið bókanörd og hef lesið á ensku fantasíubókmenntir eins og Lord of the Rings og Game of thrones. Frá barnæsku hef ég verið hugmyndaríkur og búið sjálfur til fantasíur og sögur í kringum þær. Mér finnst hreinlega að það að skrifa sögur sé frelsandi og efli andlega heilsu. Ég skrifa eitthvað á því sem næst hverjum degi, þetta eru fyrst og fremst litlar hugmyndir sem ég annað hvort vinn dýpra eða hendi. Bróðurpartinn af þessu skrifa ég á ensku en ég hef ekkert gefið út enn sem komið er. Ég hafði áhuga á að taka þátt í samkeppninni Ungskáld undir lok síðasta árs en það gekk ekki upp vegna þess að áskilið var að sögurnar væru á íslensku. Sögurnar mínar hafa fyrst og fremst verið á ensku hvað svo sem síðar kann að verða. En draumurinn er að verða rithöfundur og geta unnið við skriftir. En ég er raunsæ manneskja og geri mér grein fyrir því að það verður erfitt. Áhuginn er þó til staðar og mig langar að reyna,” segir Fjalar Berg Björnsson.