Fara í efni

Áhugasviðið er breitt

Anna Jóna Björnsdóttir.
Anna Jóna Björnsdóttir.

„Það sem mér finnst best við námið á listnáms- og hönnunarbraut er hversu breitt það er og hvað við fáum að prófa margt, t.d. ljósmyndun, grafíska hönnun, tölvuforrit og svo auðvitað málun af ýmsum toga,“ segir Akureyringurinn Anna Jóna Björnsdóttir, sem hefur síðan haustið 2016 stundað nám á listnnáms- og hönnunarbraut og stefnan er að ljúka náminu í vor. Þessa dagana er akrýlverk sem Anna Jóna gerði í málunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á vegg mót austurinngangi skólans.

Anna Jóna var í Naustaskóla á Akureyri en fór að tíunda bekk loknum til Noregs og var þar um nokkurra mánaða skeið frá 2015 til 2016 á myndlistar- og hönnunarkjörsviði í lýðháskóla í Sandnes. Hún segir að hana hafi einfaldlega langað að gera eitthvað allt öðruvísi og þessir mánuðir á lýðháskólanum hafi verið skemmtilegir. Um haustið lá leiðin í VMA. Hún segir það hafa legið beint við að fára á listnáms- og hönnunarbraut enda hafi hún lengi haft áhuga á listum af ýmsum toga, myndlist, textíl og tónlist.

Auk skólans segist Anna Jóna meðal annars starfa í Æskulýðsfélagi Akureyrarkirkju og hafi gert lengi. Einnig hafi hún sungið í Kammerkórnum Ísold. Hún segir að til hafi staðið að núna um helgina yrði haldið mót æskulýðsfélaga á Norðausturlandi austur á landi en því hafi verið aflýst, eins og mörgum öðrum viðburðum í samfélaginu þessa dagana, vegna Covid 19 veirufaraldursins.

En hvað tekur við hjá Önnu Jónu eftir VMA? Hún segir það ekki ráðið en geri ráð fyrir að fara út á vinnumarkaðinn áður en hún haldi áfram námi. En í hvaða nám sé með öllu óráðið. Hún hafi áhuga á mörgu, m.a. grafísk hönnun og fornleifafræði.