Fara í efni

Haustlitirnir fangaðir í abstrakt málverki

Guðrún Gísladóttir við gula málverkið sitt.
Guðrún Gísladóttir við gula málverkið sitt.

Eftir grunnskóla fór Guðrún Gísladóttir, sem er frá Akureyri, á bóknámsbraut í framhaldsskóla en fann sig ekki. Þá lá leiðin til Danmerkur, þar sem hún bjó sem krakki, og fór þar í einskonar hönnunarskóla þar sem kenndar eru sköpunargreinar af ýmsum toga. Þetta kveikti áhuga Guðrúnar og þegar aftur var snúið til Akureyrar langaði hana til þess að halda áfram á sömu braut. Listnámsbraut VMA var því eðlileg niðurstaða.

Sem stendur er Guðrún að vinna umönnunarstörf en hún stefnir á að byggja ofan á þann grunn sem hún hefur fengið á listnámsbrautinni og fara í grafíska hönnun sem hafi lengi heillað hana. Hún segist ekki vita enn sem komið er hvort hún sækist eftir inngöngu í skóla hér á landi eða utan landsteinanna, þá líklega í Danmörku.  Guðrún segist vera mjög ánægð með þann grunn sem hún hafi fengið á listnámsbrautinni og telur að hann muni nýtast sér afar vel í grafískri hönnun.

Á meðfylgjandi mynd stendur Guðrún við málverk sem hún málaði í MYN 504 á haustönn en hún útskrifaðist af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar í desember sl. Myndina kallar hún „Haust“. „Ég var í miklum vandræðum með að velja myndefni. Ég fór í marga göngutúra sl. haust og horfði í kringum mig og sá fölnuð laufblöð, tré og snjó. Ég ákvað að takast á við að að túlka þetta í þessu abstraktverki. Ég  verð að viðurkenna að mér hefur aldrei þótt guli liturinn fallegur en engu að síður ákvað ég að hann yrði mest áberandi í myndinni og reyndi að kalla fram fallegan gulan blæ. Og þegar upp er staðið er ég bara mjög ánægð með útkomuna,“ segir Guðrún Gíslasdóttir en "Haust" hangir nú uppi gegnt austurinngangi VMA.