Fara í efni

Hátíðleg brautskráning í Hofi

Brautskráningarnemar á sviðinu í Hofi. Mynd: PAP.
Brautskráningarnemar á sviðinu í Hofi. Mynd: PAP.

Eitthundrað þrjátíu og níu nemendur voru í dag brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi. Heildarfjöldi brautskráningarskírteina var 163 því 24 nemendur útskrifuðust í dag með tvö prófskírteini. Í desember sl. brautskráði VMA 86 nemendur og því hefur skólinn útskrifað 225 nemendur á þessu skólaári.

Í upphafi brautskráningarræðu sinnar í dag sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari það mikið ánægjuefni að geta nú loks útskrifað nemendur frá skólanum án samgöngutakmarkana og sóttvarnaaðgerða, sem hafi verið staðreyndin á síðustu fjórum útskriftum

„Við höfum öll fundið fyrir áhrifum Covid á líf okkar síðustu rúmlega tvö ár, sumt er komið til að vera en annað erum við fegin að hafði ekki varanleg áhrif. Breytingar í kjölfar heimsfaraldurs hafa mismunandi áhrif á kynslóðir og ég er nokkuð viss um að fólk á mínum aldri sér áhrifin með öðrum hætti en þeir sem yngri eru. Við munum eftir störfunum okkar fyrir covid og hvernig vinnustaðurinn var bara á sínum stað. Sumir í göngufæri við vinnustaðinn en aðrir keyra tugi kílómetra til að komast á sinn stað í vinnuna. Bara fyrir nokkrum árum þurftum við að fara á milli staða til að fá stimpla og undirskriftir vegna erinda við hið opinbera. Við tókum út gjaldeyri í alvöru bréfpeningum áður en við fórum til útlanda - við meira að segja eigum sum enn bleika eða græna vélritaða ökuskírteinið okkar. 

Unga fólkið sem við sjáum hér á sviðinu mun hins vegar ganga inn á vinnustaði framtíðarinnar með öðrum hætti. Það mun ekki bara hafa val heldur gerir það kröfu um að fá að stjórna vinnu sinni meira sjálft og staðsetning hefðbundinna skrifstofu- og þjónustustarfa verður ekki endilega með viðveru í húsnæði fyrirtækis eða stofnunar. Á næstu árum kemur fólk inn á vinnumarkaðinn með annað hugarfar og hugmyndir þess um störf verða aðrar en t.d. mín kynslóð hefur. Unga fólkið mun ekki þekkja störfin og starfsumhverfið eins og það er í dag og alls ekki eins og það var fyrir árið 2019. Sjálfvirkni og jafnvel sýndarveruleiki verður stór hluti í vinnuumhverfi framtíðarinnar og vinnustaðurinn verður næstum hvar sem er og þar sem það hentar út frá eðli starfsins, vinnustað og starfsmanni,“ sagði Sigríður Huld. 

Ekki hægt að gúgla mennskuna

Skólameistari sagði að með breyttu samfélagi þurfi að huga að breyttri menntun og því væri mikil áskorun í því fólgin að halda í við þessar breytingar í framhaldsskólunum. „Hvað sem verður er það alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi. Áhersla skólanna verður að vera meiri í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, læra að þekkja líðan sína, takmarkanir og leiðir til sjálfseflingar, kenna meira um alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi, virða mannréttindi og efla jafnrétti í víðum skilningi. Áhersla á þekkingu og staðreyndir þarf að víkja fyrir mennskunni og það er áskorun fyrir kennara, skólana, stjórnmálamenn og foreldra. Aðgangur að þekkingu og námi er ekki takmarkaður við fáa einstaklinga eins og áður var. Atvinnulífið kallar á hæfni í mannlegum samskiptum og er krafa um þá hæfni í nær öllum atvinnuauglýsingum sem við sjáum í dag. Sum störf krefjast frekar hæfni í mannlegum samskiptum en hreinnar fagþekkingar. Fagið er ekki alltaf það sem skiptir mestu máli heldur eiginleiki fólks til að vinna með öðru fólki og ná árangri í gegnum samvinnu. Ungt fólk þekkir þá auðveldu leið til þekkingarleitar að gúgla en mennskuna er ekki hægt að gúgla, hana lærir fólk í gegnum samskipti og samvinnu.“ 

Þurfum að gera betur

Sigríður Huld sagði aðgang að menntun ekki vera sjálfgefinn, þó svo að við Íslendingar þekkjum ekki annað. „Okkur er hins vegar ekki öllum gefin sömu tækifærin til að ná fram okkar besta í gegnum okkar ágæta skólakerfi. Við búum börnum mismunandi aðstæður eftir efnahag foreldranna og það kemur fram í framtíðarmöguleikum þeirra. Sterkasta fylgnin við brottfall úr framhaldsskólum er efnahagsleg staða foreldra og brottfallið eykst enn frekar ef foreldrar eru með annað móðurmál en íslensku. Við þurfum að gera svo miklu betur gagnvart þessum börnum, þurfum að efla þau og gefa þeim þau tækifæri sem við getum boðið þeim ef við sem samfélag ákveðum að gera það.

Það sem getur aukið velferð barna til framtíðar gerist inni í skólunum - með menntun. Það felast nýjar áskoranir í nýjum lögum um velferð barna en innleiðing á þeim stendur nú yfir. En þrátt fyrir góðan ásetning laganna get ég ekki séð betur en að það þurfi að ráða í ný störf sem krefjast fagþekkingar og hæfni sem tengist félagsþjónustu og þjónustu við foreldra og börn þeirra. 

Framhaldsskólar á Íslandi fá afar takmarkað fé til að aðstoða nemendur með annað móðurmál en íslensku. Námsbrautarlýsingar gera ekki ráð fyrir öðru en að allir geti skilið, lesið og skrifað íslensku. Það er ekki gert ráð fyrir því að nemendur geti stundað nám á sínu eigin móðurmáli með neinum hætti. Foreldrar geta lítið hjálpað börnum sínum þar sem þeir skilja ekki heldur það sem er farið fram á að barnið læri. Það eru þó til leiðir en þær eru vannýttar, kannski vegna þess að það er ekki nógu mikill áhugi á því að nýta þær, t.d. með aðstoð tækninnar og með því að efla þekkingu og sérhæfingu kennara til að vinna með nemendum með annað móðurmál en íslensku. En til þess þarf aukið fjármagn, sem ég tel að sé vel varið til að hjálpa nemendum að finna sig í námi og ljúka því,“ sagði Sigríður Huld. 

Krefjandi covid-skólaár

Í lok ræðu sinnar beindi Sigríður Huld orðum sínum að brautskráningarnemum:

„Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafið þurft að leggja á ykkur mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til því hér eruð þið nú. Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með móðurmálið ykkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. En fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Þótt covid hafi markað skólagöngu ykkar síðustu annir vona ég að þið hafið náð því sem sagt er um þessi svokölluðu framhaldsskólaár að þá kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt - þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu.“

Og til starfsfólks skólans beindi skólameistari þessum orðum: „Það hefur mikið mætt á ykkur í kennara- og starfsmannahópnum við að ná markmiðum okkar með nemendum. Veikindi og sóttkví höfðu mikil áhrif á allt skólastarfið í vetur en með samstöðu gekk skólastarfið upp.   

Takk öll fyrir samstarfið, dugnaðinn og stuðninginn á þessu skólaári og ég vil sérstaklega þakka Benedikt Barðasyni aðstoðarskólameistara fyrir samstarfið. Að stjórna skóla eins og VMA er ekki einnar konu verk, samheldinn starfsmannahóp þarf líka til og það er þakkarvert að vinna með starfsmannahópnum í VMA. Ég er afar stolt af samstarfsfólki mínu fyrir fagmennsku þeirra og umhyggju fyrir nemendum og þeim gildum sem skólinn stendur fyrir. Kærar þakkir öll fyrir samstarfið á önninni.“ 

Fertugasta og sjötta brautskráning Baldvins

Um brautskráningu nemenda sáu sem fyrir sviðsstjórar skólans: Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms, Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautabrúar og starfsbrauta, og Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og sjúkraliðabrautar.

Baldvin B. Ringsted var nú að útskrifa nemendur af sínu sviði í fertugasta og sjötta sinn en hann hefur verið stjórnandi við skólann í 23 ár. Baldvin hefur ákveðið að hætta störfum sem sviðsstjóri og taka á næsta skólaári aftur upp þráðinn sem kennari.

Viðurkenningar og blómvendir

Dúx skólans fékk viðurkenningu og gjafabréf frá skólanum og Minningarsjóður Albers Sölva Karlssonar veitti einum nemanda viðurkenningu og gjafabréf fyrir árangur í samfélagsgreinum. Brautskráðir húsasmiðir fengu gjöf frá BYKO og Byggiðn veitti bókargjöf fyrir framúrskarandi árangur í húsasmíði og pípulögnum. Þá fengu brautskráðir nemendur í hársnyrtiiðn gjafir frá Regalo ehf heildverslun og Þórborg ehf heildverslun.

Einnig voru við brautskráninguna afhentir blómvendir til eftirtalinna nemenda sem hafa í ríkum mæli lagt lóð sín á vogarskálarnar í félagslífi nemenda, með setu í stjórn nemendafélagsins Þórdunu eða á annan hátt:

Freysteinn Sverrisson    
Guðný Vala Tryggvadóttir    
Helgi Freyr Gunnarsson   
Sveinn Brimar Jónsson    
Tumi Snær Sigurðsson    

Ávarp brautskráningarnema flutti Bryndís Þóra Björnsdóttir, nýstúdent af náttúruvísindabraut.

Við brautskráninguna voru flutt tvö tónlistaratriði. Annars vegar var varpað upp á tjald upptöku frá 2020. Embla Björk og Eyþór Daði, sem bæði hafa áður verið útskrifuð úr sínu námi í skólanum, fluttu lagið Vikivaki eftir Valgeir Guðjónsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum. Upptakan var gerð í Vaðlaheiðargöngum. Hins vegar söng Sveinn Brimar Jónsson, nýstúdent, lag Bjartmars Guðlaugssonar Stúdentshúfan. Um undirleikinn sá Pétur Guðjónsson.

Eftirfarandi er texti Stúdentshúfunnar, sem einnig er eftir Bjartmar Guðlaugsson:

Þegar fyrirmyndarbarnið hætti að læra heima
og skellti sér með dúndurkrafti í trukkið.
Þá fyrirmyndarforeldarnir reyndu því að gleyma
og helltu sér með sama krafti í sukkið.

Svekkt og sár, hún mútta fellir tár,
það verður engin stúdentshúfa‘ í ár.

Og fyrirmyndarforeldrarnir fengu sér í staupið
og töluðu með tilfinningu um barnið.
Já, til hvers var nú púlað og til hvers var nú hlaupið
og hver á nú að fara út með skarnið.

Svekkt og sár, hún mútta fellir tár,
það verður engin stúdentshúfa‘ í ár.

Og fyrirmyndabarnið gerðist geðtruflað í háttum
og skellti sér í slorið til að vinna fyrir sér.
Og félagsmálaráðgjafinn reyndi að koma‘ á sáttum,
sagði: Krakkafíflið hló bara og gerði grín að mér.

Svekktur, sár, hann fellir fílatár,
það verður engin brauðterta í ár.

Nei það var ekki svona þegar pabbi þinn var ungur,
þá Mogadon var notað til að róa strekkta sál.
Og allir nefndir Haunkbellir, ræflar eða gungur,
sem ekki voru bjargálna og ræktuðu sitt mál.

Svekkt og sár, hún mútta fellir tár,
það verður engin stúdentshúfa í ár.
Það verður engin stúdentshúfa.
Það verður engin brauðterta.
Það verður engin stúdentshúfa í ár