Fara í efni

Hársnyrtinemar kynna sér aðstæður í Þrándheimi

Miðrými Charlottenlund skólans í Þrándheimi.
Miðrými Charlottenlund skólans í Þrándheimi.

Síðastliðið haust kom hópur starfsmanna frá Charlottenlund framhaldsskólanum í Þrándheimi í Noregi í heimsókn í Verkmenntaskólann í þeim tilgangi m.a. að kynnast starfinu og sjá hvernig staðið væri að kennslu í hinum ýmsu deildum skólans. Charlottenlund er fjölgreinaskóli og á margan hátt líkur VMA. Til þess að styrkja tengslin frekar við Charlottenlund fóru fjórir kennarar frá VMA nýverið til Þrándheims til þess að sjá hvað Charlottenlund hefði upp á að bjóða. Einn af þeim möguleikum sem nú er til alvarlegrar skoðunar í tengslum við samstarf skólanna er að tveir hársnyrtinemendur frá VMA taki hluta af námssamningi sínum í Þrándheimi.

Í sendinefnd VMA til Þrándheims voru Hildur Salína Ævarsdóttir, kennari í hársnyrtigreinum, Baldvin B. Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs, Harpa Birgisdóttir, brautarstjóri hársnyrtibrautar og Sveina Björk Jóhannesdóttir, textílgreinakennari.

„Charlottenlund er fjórtán hundruð nemenda fjölgreinaskóla og á VMA margt sameiginlegt með honum. Það var mjög áhugavert að sjá hvað er verið að gera í þessum skóla og tengjast starfinu þar. Hvað okkur á hársnyrtibrautinni varðar var megin tilgangur ferðarinnar að skoða hársnyrtideildina og hársnyrtistofur í Þrándheimi með það fyrir augum að nemendur frá okkur gætu komist á námssamning þar ytra. Til þess að það megi verða höfum við sótt um styrk sem verði varið til uppihalds nemendanna á meðan á dvöl þeirra standi í Þrándheimi. Þessir tveir nemendur fara út til Þrándheims síðar í þessum mánuði ásamt Hörpu brautarstjóra og verða úti í um viku til þess að skoða skólann og tvær hársnyrtistofur í Þrándheimi. Þar fara nemendurnir í prufur og síðan er það eigenda stofanna að meta hvort þeir vilji taka nemendurna á samning. Gangi það allt saman vel og við fáum Erasmus styrkinn sem við erum búin að sækja um er ætlunin að þessir tveir nemendur verði í níu mánuði í Þrándheimi á námssamningi,“ segir Hildur Salína.

Nemendur af öðrum brautum í VMA hafa farið út fyrir landssteinana til skemmri námsdvalar, t.d. nemendur á sjúkraliðabraut, en aldrei áður hafa nemendur á hársnyrtibraut farið í slíka námsdvöl erlendis. „Í mínum huga er það mjög gott og kærkomið tækifæri fyrir nemendur að geta farið út fyrir landssteinana og vinna á námssamningi í öðru landi og fá um leið tækifæri til að læra annað tungumál,“ segir Hildur Salína. Gangi áætlanir um Noregsdvölina eftir myndi námssamningur nemendanna tveggja, sem nú eru að ljúka fjórðu önn í hársnyrtináminu í VMA, að óbreyttu hefjast strax í sumar og er miðað við 36 vikur eða níu mánuði, sem er helmingur námstímans. Síðan eiga nemarnir eftir að ljúka fimmtu og síðustu námsönninni í VMA og síðari helmingi námstímans á hársnyrtistofu.