Fara í efni

Hársnyrtinemar með tískusýningu á Dömulegum dekurdögum

Útskriftarnemar undirbúa tískusýninguna.
Útskriftarnemar undirbúa tískusýninguna.

Tíu útskriftarnemar á hársnyrtibraut VMA taka þátt í árlegum Dömulegum dekurdögum á Akureyri, sem hefjast á morgun og verða fram á sunnudag. Útskriftarhópurinn verður með tískusýningu á Glerártorgi annað kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20 til 20:30. Fólki er bent á að mæta stundvíslega til þess að missa ekki af neinu því sýningin tekur að hámarki hálftíma.

Útskriftarsýningin er hluti af námi hársnyrtinemanna tíu og er í raun lokaverkefni þeirra í áfanganum HGR 503.

Á sýningunni annað kvöld sýna nemendurnir vetrartískuna fyrir komandi vetur. Hárlitanir verða sýndar, sömuleiðis klippingar og hárgreiðsla fyrir dömur og herra og einnig verða sýndar barnaklippingar.

Harpa Birgisdóttir, kennari á hársnyrtibraut, segir að sýningin sé kærkomin fyrir nemendur til þess að sýna hvað í þeim býr. Nemendur hafi að undanförnu unnið markvisst að undirbúningi sýningarinnar og lokahönd verði ekki lögð á undirbúninginn fyrr en  á morgun. Hver tíu útskriftarnemanna sýnir fimm módel og verða þau klædd fatnaði frá fjórum fyrirtækjum; Lindex, Imperial, 66N° og Dressmann.