Fara í efni

Þrjár sögur Hálfdáns

Hálfdán Örnólfsson, höfundur og útgefandi.
Hálfdán Örnólfsson, höfundur og útgefandi.

Síðastliðinn fimmtudag fékk Hálfdán Örnólfsson, kennari í VMA, í hendur, beint úr prentsmiðjunni, splunkunýja kilju sem hann sjálfur gefur út og nefnist Þrjár sögur. Bókin inniheldur, eins og titill hennar gefur til kynna, þrjár sögur sem Hálfdán hefur skrifað, að stærstum hluta á þessu ári. Hér sýnir Hálfdán á sér nýja hlið en það kemur í ljós þegar um er spurt að hann hefur á undanförnum árum gert töluvert af því að skrifa fyrir skúffuna, eins og það er kallað. En hér eru þó þrjár sögur dregnar upp úr skúffunni og koma fyrir sjónir almennings. Sögurnar þrjár í bókinni nefnir Hálfdán í fyrsta lagi Kýrskarð, í öðru lagi Hr. Haggis og í þriðja lagi Ráðsmaðurinn.

Um fyrstu söguna, Kýrskarð, segir á bókarkápu: Náttúra mannsins, náttúra kýrinnar, vestfirsk náttúra. Hverjar eru afleiðingarnar þegar þessu lýstur saman?  Á framhlið bókarinnar er mynd af Bakkaófæru við Skálavík á norðanverðum Vestfjörðum.  Það er ekki tilviljun því faðir Hálfdáns er alinn upp á bænum Breiðabóli í Skálavík og segir Hálfdán að hann hafi fyrst komið á þessar slóðir þegar hann var unglingur og reyni að koma eins oft og hann geti á þessar slóðir. Skálavíkin og brött fjöll er sögusviðið í fyrstu sögu bókar Hálfdáns. Nafn sögunnar vísar til þess að bóndinn á bænum Keflavík hafði farið með yxna kú yfir Bakkaskarð til þess að koma henni undir naut og þótti sú ferð mikið afrek. Í kjölfarið urðu margir til þess að nefna skarðið Kýrskarð. Hálfdán segir að fyrir nokkrum árum hafi hann gengið þarna yfir í góðra vina hópi í og þá hafi þessi saga rifjast upp. Út frá þessu hafi hann sett saman þessa sögu sem hann kalli Kýrskarð. „Í rauninni er þetta dramatísk ástarsaga þar sem m.a. vinnuhjú koma við sögu,“ segir Hálfdán og er leyndardómsfullur á svip.

Aðra sögu bókarinnar nefnir höfundur Hr. Haggis. Um hana segir á bókarkápu: Hér er frásögn af ævintýrum roskins framhaldsskólakennara í námsorlofi færð í skáldævisögulegan búning.  Hálfdán segir að Haggis sé náungi sem hann hafi kynnst þegar hann var í námsorlofi fyrir nokkrum árum.  „Þetta er að stærstum hluta ferðasaga sem gerist í Svíþjóð þar sem ég bjó í hluta af mínu námsorlofi hjá kínverskri fjölskyldu í tvo mánuði. Ég tvinna saman það sem gerðist í þessari námsdvöl í Svíþjóð og bæti töluverðu við,“ segir Hálfdán. 

Þriðju söguna kallar Hálfdán Ráðsmaðurinn . Um hana segir á bókarkápu: Forstöðumaður ríkisstofnunar verður óvinnufær vegna veikinda og stjórnvöldum er nokkur vandi á höndum þegar finna skal hinn rétta eftirmann.   Hálfdán segir að í þessari sögu sé eilítil gagnrýni á m.a. einkavæðingartilburði í ríkisrekstrinum, sem fari oft í taugarnar á sér. „Þetta er eina sagan í bókinni þar sem er smá pólitík eða ádeilubroddur,“ segir Hálfdán.

Fyrir um tuttugu árum skrifaði Hálfdán kennslubók eða hefti í þjóðhagfræði sem hann hefur nýtt í kennslu. „Það var svo sem enginn litteratúr, heldur safnaði ég saman hinu og þessu úr faginu. Síðan  prófaði ég í reiði minni eftir hrunið að setja eitthvað saman og sendi reyndar í forlag, en fékk aldrei svar. Svo það endaði bara í skúffunni og bíður sennilega næsta hruns,“ segir Hálfdán og brosir. „Einnig fiktaði ég við að skrifa norræna glæpasögu og á hana til í handriti í skúffunni. Ég sýndi forlagi það handrit sömuleiðis og fékk svar fjórum mánuðum síðar; kurteislegt nei, þetta hentar okkur ekki. Þá fór ég velta því fyrir mér að ef ég ætlaði að gefa einhvern tímann eitthvað út, svona til gamans, þá þýddi ekkert að standa í þessu.  Ég hugsaði því með mér að nú setti ég saman sögur í smá kilju og færi niður í Ásprent og léti prenta hana þar. Og það gerði ég og þetta gekk svona ljómandi vel. Ég er að þessu bara til að skemmta sjálfum mér og finnst allt sem ég skrifa rosalega fyndið og skemmtilegt!“ segir Hálfdán og hlær.

En hvenær skapar Hálfdán sér tíma til þess að skrifa? „Ég geri þetta nú mest á kvöldin á meðan aðrir horfa á sjónvarp eða liggja á facebook. Ég byrjaði í alvöru á þessu upp úr veikindum sem ég gekk í gegnum vorið 2012. Þá nýtti ég tímann sem gafst til þess að skrifa dálítið, m.a. í þær vikur sem ég var í endurhæfingu á Reykjalundi,“ segir Hálfdán.

Þeim sem kynnu að hafa áhuga á að eignast Þrjár sögur er bent á að hafa samband við Hálfdán, útgefanda og höfund. Einnig er bókin til sölu í Eymundsson, á meðan birgðir endast.