Fara í efni

Hæsta einkunn á sveinsprófi í pípulögnum

Elfari Dúa var veitt viðurkenning 10. maí sl. fyrir frábæran árangur á sveinsprófi í pípulögnum. Með…
Elfari Dúa var veitt viðurkenning 10. maí sl. fyrir frábæran árangur á sveinsprófi í pípulögnum. Með honum eru Vilborg Helga framkvstj. Iðunar, Jón Bjarni Jónsson form. Byggiðnar og Jóhann Rúnar Sigurðsson form. Fél. málmiðnaðarm. Akureyri. Mynd: idan.is

Elfar Dúi Kristjánsson á Akureyri, sem útskrifaðist úr námi í pípulögnum frá VMA í desember sl., náði bestum árangri á sveinsprófi í pípulögnum. Sveinsprófið var í janúar sl. Þetta var tilkynnt 26. mars sl. þegar Félag iðn- og tæknigreina í Reykjavík afhenti nýsveinum sveinsbréf og Elfar Dúi veitti síðan viðtöku viðurkenningu fyrir þennan frábæra árangur í Menningarhúsinu Hofi 10. maí sl. þegar sextíu nýsveinar í húsasmíði, pípulögnum og vélvirkjun fengu afhent sveinsbréf sín. Meistari Elfars Dúa var Hinrik Þórðarson, sem jafnframt var kennari hans í náminu í VMA.

Elfar Dúi er heldur betur fjölhæfur. Þrátt fyrir þennan afburða árangur í pípulögnum er hann ekki starfandi pípulagningamaður, hvað svo sem síðar kann að verða. Hann er flugmaður í fullu starfi, starfaði í sjúkrafluginu hjá Mýflugi en er nú flugstjóri í áætlunarflugi Norlandair. Sem sagt fljúgandi pípulagningamaður!