Fara í efni

Guðmundur töframaður ætlar að verða kokkur

Guðmundur Sverrisson galdramaður með spilastokkinn
Guðmundur Sverrisson galdramaður með spilastokkinn

Eins og vera ber í fjölmennum skóla eins og VMA búa nemendur yfir margvíslegum og ólíkum hæfileikum. Flestar sínar frístundir nýtir Guðmundur Sverrisson, nemandi á matvælabraut VMA, til þess að æfa spilagaldra eða sjónhverfingar með spilastokka. Þetta hefur hann gert í um fimm ár eða síðan hann var tólf ára gamall og stöðugar æfingar hafa borið ávöxt því hann er kominn í fremstu röð sjónhverfingamanna á sínu sviði hér á landi og hefur víða komið fram.

Guðmundur segist hafa fengið áhuga á þessu þegar hann sá spilagaldra í sjónvarpinu. Í framhaldinu hafi hann farið að skoða ýmislegt í þessum efnum á Youtube og smám saman hafi boltinn farið að rúlla. Síðan hafi hann keypt sér ýmsar bækur og fengið ýmis góð og hluti frá t.d. Magnúsi Jónssyni og Einari Mikael.

„Ég byrjaði í spilagöldrunum og hef verið mest í þeim en ég er smám saman að víkka þetta út. Ég hef verið meira fyrir það sem kallast á ensku „closeup matic“ en eftir því sem ég hef meira að gera í þessu er ég er hægt og rólega að færa mig meira upp á sviðið,“ segir Guðmundur sem lýkur grunndeild matvælabrautar í vor. Veturinn 2013-2014 tók hann reyndar grunnnámið í byggingadeildinni sem var smá hliðarspor en núna er hann í náminu sem hann ætlar að einbeita sér að í framtíðinni, hann ætlar sér sem sagt að verða kokkur – og að sjálfsögðu töframaður þar að auki. „Ég ætla að fara á félagsfræðabraut og klára stúdentinn en síðan er stefnan að fara á samning og verða kokkur,“ segir Guðmundur.

„Allur minn frítími fer í að vera með spilastokkana í höndunum og æfa mig. Það á við um mig eins og aðra töframenn að mér finnst gaman gera eitthvað sem er ótrúlegt og ómögulegt,“ segir Guðmundur.

Guðmundur er með síðu á facebook þar sem hægt er að nálgast frekari upplýsingar um hann.