Fara í efni

Guðmundur Ármann ræðir um Óla G. í þriðjudagsfyrirlestri

Guðmundur Ármann Sigurjónsson myndlistarmaður. Um árabil kenndi hann á nemendum listnámsbrautar VMA.
Guðmundur Ármann Sigurjónsson myndlistarmaður. Um árabil kenndi hann á nemendum listnámsbrautar VMA.

Í dag, þriðjudaginn 7. október kl. 16.15, heldur Guðmundur Ármann Sigurjónsson myndlistarmaður og kennari fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri í röð þriðjudagsfyrirlestra undir yfirskriftinni Óli G. – rómantíski expressíónistinn. Þar mun hann fjalla um myndlistarferil Óla G. Jóhannssonar (1945-2011) og gera tilraun til að varpa ljósi á hversu mikilvægt það er fyrir listamanninn að samfélagið sé tilbúið að taka á móti honum og listinni.

Fyrirlesturinn er haldinn í tengslum við yfirlitssýningu á verkum Óla G., Lífsins gangur, sem nú stendur yfir í Listasafninu. Hann er þekktur fyrir greinilegan abstrakt expressjónískan stíl, þar sem kraftar náttúrunnar – sólin, vindurinn og hafið – flæða í gegnum verkin. Verk Óla, sem eru mótuð af áhrifum Cobra-hreyfingarinnar, umbreyta hverfulum augnablikum og minningum listamannsins í varanleg form, sem draga fram fegurð þeirra og dýpt. Þau voru eins konar móttökutæki fyrir það markverðasta sem á daga hans dreif – náttúru, tilfinningar og strjál augnablik – sem um leið vekja til umhugsunar um jarðlífið.

Um árabil voru Guðmundur Ármann og Óli G. Jóhannsson samherjar í sköpun myndlistar á Akureyri og því fylgdist Guðmundur vel með þróun Óla sem myndlistarmanns.

Guðmundur Ármann hefur starfað sem myndlistarmaður síðan hann lauk háskólanámi frá listaháskólanum Valand í Gautaborg í Svíþjóð 1972. Hann hefur haldið yfir 52 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga. Hann hóf kennsluferil sinn sem aðstoðarkennari í grafíkdeild Valand listaháskólans. Um árabil kenndi hann við listnámsbraut VMA en síðustu árin hefur hann m.a. kennt myndlist í SÍMEY og á hinum ýmsu námskeiðum. Árið 2012 lauk Guðmundur meistaranámi við Háskólann á Akureyri í kennslugreinum myndlistar og fjallaði lokaritgerðin um sjónmenningu og listnámskennslu við framhaldsskóla í Svíþjóð og á Íslandi.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Myndlistarfélagsins og Gilfélagsins.