Fara í efni

Guðmundur Ármann með þriðjudagsfyrirlestur

Guðmundur Ármann Sigurjónsson.
Guðmundur Ármann Sigurjónsson.

Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður og kennari til fjölda ára við listnámsbraut VMA, heldur fyrirlestur í dag, þriðjudaginn 11. nóvember, kl. 17 í Ketilhúsinu sem hann nefnir Að tína upp og miðla. Fyrirlesturinn er í röð svokallaðra Þriðjudagsfyrirlestra sem efnt er til á þriðjudagseftirmiðdögum núna á haustönní Ketilhúsinu á vegum listnámsbrautar VMA, Listasafnsins á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.

Í fyrirlestri sínum fer Guðmundur Ármann yfir 42ja ára feril sinn í myndlistinni en sem fyrr segir var hann kennari til fjölda ára við listnámsbraut VMA auk þess að vinna að eigin listsköpun.

Guðmundur Ármann hefur starfað sem myndlistarmaður síðan hann lauk háskólanámi frá listaháskólanum Valand í Gautaborg í Svíþjóð árið 1972. Hann hefur haldið yfir 20 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga. Hann hóf kennsluferil sinn sem aðstoðarkennari í grafíkdeild Valand listaháskólans en lauk honum í vor eftir að hafa kennt við listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri í 14 ár. Árið 2012 lauk hann meistaranámi við Háskólann á Akureyri í kennslugreinum myndlistar og fjallaði lokaritgerðin um sjónmenningu og listnámskennslu við framhaldsskóla í Svíþjóð og á Íslandi.Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir.