Fara í efni

Guðmundur Ármann með fyrsta þriðjudagsfyrirlestur vetrarins

Guðmundur Ármann Sigurjónsson.
Guðmundur Ármann Sigurjónsson.

Í dag, þriðjudaginn 29. september, kl. 17:00-17:40 verður fyrsti fyrirlesturinn í röð fyrirlestra á þriðjudögum í vetur í Ketilhúsinu, sem er hluti af rými Listasafnsins á Akureyri. Enginn aðgangseyrir er að fyrirlestrunum.

Fyrsti fyrirlesari vetrarins verður Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður, formaður Gilfélagsins, fyrrv. kennari við listnámsbraut VMA o.fl. Fyrirlestur Guðmundar ber yfirskriftina List yfir landamætri: Að miðla reynslu og þekkingu listamanna og mun hann fjalla um samsýningu níu listamanna í Hällefors í Svíþjóð. Einnig segir Guðmundur frá verkefninu Islandsfärger, Litir Íslands og hugleiða hvaða gildi það hefur fyrir listamenn að vinna yfir landamæri.

Guðmundur Ármann hefur starfað sem myndlistarmaður síðan hann lauk háskólanámi í Gautaborg í Svíþjóð árið 1972. Hann hefur haldið yfir 25 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga. Hann hóf kennsluferil sinn sem aðstoðarkennari í grafíkdeild Valand listaháskólans í Gautaborg, þar sem hann var við nám. Kennsluferlinum lauk hann vorið 2014 eftir að hafa kennt við listnámsbraut VMA í 14 ár. Guðmundur er þó ennþá að miðla þekkingu sinni og reynslu á námskeiðum, m.a. kennir hann á námskeiðum í Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.

Árið 2012 lauk Guðmundur Ármann meistaranámi við Háskólann á Akureyri í kennslugreinum myndlistar og fjallaði lokaritgerðin um sjónmenningu og listnámskennslu við framhaldsskóla í Svíþjóð og á Íslandi.

Að þriðjudagsfyrirlestrunum standa Listasafnið á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Gilfélagið og Myndlistarfélagið á Akureyri.