Fara í efni

Guðmundur Ármann fjallar um grafík í þriðjudagsfyrirlestri

Guðmumdur Ármann Sigurjónsson.
Guðmumdur Ármann Sigurjónsson.

Guðmundur Ármann Sigurjónsson myndlistarmaður og kennari heldur í dag, þriðjudaginn 24. janúar kl. 17:00-17:40, fyrsta þriðjudagsfyrirlestur ársins í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Galdurinn í þrykkinu. Þar mun hann fjalla um upphaf grafíkur á Íslandi og hvenær fjölföldun hófst á myndum eftir höfunda sem vinna þær í myndmót. Einnig ræðir hann stöðu grafíkur í dag. 

Guðmundur Ármann Sigurjónsson hefur starfað sem myndlistarmaður síðan hann lauk háskólanámi frá listaháskólanum Valand í Gautaborg í Svíþjóð árið 1972. Hann hefur haldið yfir 25 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga. Hann hóf kennsluferil sinn sem aðstoðarkennari í grafíkdeild Valand listaháskólans en lauk honum vorið 2014 eftir að hafa kennt við listnámsbraut VMA í 14 ár. Árið 2012 lauk hann meistaranámi við Háskólann á Akureyri í kennslugreinum myndlistar og fjallaði lokaritgerðin um sjónmenningu og listnámskennslu við framhaldsskóla í Svíþjóð og á Íslandi. Hin síðari ár hefur Guðmundur Ármann kennt listsköpun á námskeiðum hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.

Sem fyrr eru þriðjudagsfyrirlestrarnir samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins, MA og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Fyrirlestrarnir verða á þriðjudögum fram á vor í Listasafninu á Akureyri. Ókeypis aðgangur er að fyrirlestrunum.