Fara í efni

Grunnur lagður að sumarbústað

Nú er unnið að smíði burðargrindar.
Nú er unnið að smíði burðargrindar.

Þrátt fyrir að örfáir dagar séu liðnir af skólaárinu eru nemendur í byggingadeild nú þegar komnir í fullan gang með byggingu sumarbústaðar. Þetta er árvisst verkefni nemenda á þriðju önn í húsasmíði og er afar mikilvægt og lærdómsríkt fyrir nemendur.

Bygging sumarbústaðarins er stóra verkefni nemenda á þriðju og fjórðu önn í húsasmíðinni. Að þessu vetri loknum fara nemendur á námssamning en koma síðan aftur inn á síðustu námsönnina að hálfu öðru ári liðnu og eru að henni lokinni tilbúnir í sveinspróf í húsasmíði.

Sumarbústaðarbyggingin er sem fyrr segir afar lærdómsrík. Eins og vera ber fá nemendur innsýn í ótal marga hluti sem þeir koma til með að glíma við í störfum sínum sem húsasmiðir síðar á lífsleiðinni. Núna eru tuttugu nemendur á þriðju önn og er þeim skipt í tvo hópa sem báðir glíma við sumarbústaðarbygginguna. 

Til að byrja með er grindin undir sumarbústaðinn smíðuð og að þeim hluta verksins er nú verið að vinna. Síðan eru útveggirnir smíðaðir innan dyra og þegar þeir verða tilbúnir verður húsið reist utan dyra.

Undanfarin ár hefur bústaðurinn verið byggður samkvæmt sömu teikningunni en að þessu sinni er hann smíðaður samkvæmt nýrri teikningu Steinmars H. Rögnvaldssonar hjá H.S.Á. teiknistofu á Akureyri. Grunnflötur bústaðarins, sem er á einni hæð, er ríflega fimmtíu fermetrar og eru tvö svefnherbergi í húsinu. Yfir hluta hússins er svefnloft.

Í vetur verður smíði bústaðarins fylgt eftir hér á heimasíðunni. Bústaðurinn verður seldur næsta sumar eins og hann stendur þegar skólaárinu lýkur.