Fara í efni

Grunnskólanemar frá Ittoqqortoormiit í heimsókn í VMA

Verkefnavinna í landafræði í tíma í náttúrulæsi.
Verkefnavinna í landafræði í tíma í náttúrulæsi.

Ellefu nemendur auk fararstjóra fra Ejnar Mikkelsenila Aluarpia grunnskólanum í Ittoqqortoormiit á Austur-Grænlandi eru nú í heimsókn á Akureyri. Hópurinn var í gær í VMA og verður einnig í skólanum í dag. Nemendurnir eru á aldrinum 13-15 ára. 

Hildur Friðriksdóttir tók á móti hópnum í VMA í gær og gekk með honum um skólann og útskýrði námsframboð og það sem fyrir augu bar. Síðan lá leiðin í kennslustund hjá Jóhannesi Árnasyni í náttúrulæsi þar sem grænlensku krakkarnir og VMA-nemar glímdu m.a. við verkefni í landafræði, sem fólst í því að merkja inn á kort nöfn ýmissa staða á Íslandi og Grænlandi, með hjálp kortabóka og Google. Fararstjóri hópsins, Danialeeraq, hafði orð fyrir hópnum og sýndi nemendum nokkrar myndir frá Ittoqqortoormiit og sagði frá skólastarfinu og daglegu lífi þar. 

Hinir grænlensku gestir dvelja á Akureyri í eina viku. Þeir komu sl. þriðjudag og fara aftur til Grænlands á þriðjudag í næstu viku, 16. apríl. Á föstudaginn mun hópurinn sækja heim Menntaskólann á Akureyri, helginni verður varið í ýmsa afþreyingu og á mánudaginn verða tvö fyrirtæki á Akureyri heimsótt, Purity Herbs og Slippurinn.