Fara í efni

Grunnskólanemar liða hár

Hildur Salína leiðbeinir stúlku úr Brekkuskóla.
Hildur Salína leiðbeinir stúlku úr Brekkuskóla.

Eins og sagt var frá hér á heimasíðunni sl. föstudag stendur nemendum í tveimur efstu bekkjum grunnskóla til boða að kynna sér rafvirkjun/rafeindavirkjun í VMA einu sinni í viku til vors. Einnig eru þrír námshópar úr 9. og 10. bekk grunnskóla Akureyrar á þessari önn í iðngreinakynningu í hársnyrtiiðn. Hildur Salína Ævarsdóttir kennir tveimur námshópum og Harpa Birgisdóttir einum.

Þegar litið var inn í tíma hjá Hildi Salínu í síðustu viku var hún að leiðbeina nemendum úr Brekkuskóla. Verkefni dagsins var einfaldlega að liða hár. Virðist kannski við fyrstu sýn vera frekar einfalt en er það þó alls ekki. Í þessu eins og öðru þarf að hafa vandvirkni að leiðarljósi og æfingin skapar meistarann. Hildur Salína segir að þar sem einungis sé um að ræða einn tíma í viku til vors sé ekki möguleiki að fara mjög djúpt í hvern námsþátt en fyrst og fremst sé lögð áhersla á að kynna grunnskólanemum ákveðna grunnþætti í faginu og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig.