Grunnskólanemar heimsóttu VMA
09.10.2025

Grunnskólanemar kynntu sér bæði verk- og bóknám í VMA. Hér er nemendahópur að fá innsýn í hársnyrtiiðn.
Það hefur verið margt um manninn í VMA síðustu tvo daga - töluvert fleiri á göngunum en venjulega - vegna þess að nemendur úr efstu bekkjum grunnskóla á Norðurlandi hafa sótt VMA heim og kynnt sér námið í skólanum.
Síðastliðinn þriðjudag komu í heimsókn nemendur grunnskóla Akureyrar að Síðuskóla frátöldum en nemendur hans komu síðan í heimsókn í gær sem og nemendur grunnskóla víðs vegar að af Norðurlandi - frá Húnavatnssýslum í vestri til Norður-Þingeyjarsýslu í austri.
Alltaf er jafn ánægjulegt að fá grunnskólanemendur í heimsókn í skólann. Í það heila komu að þessu sinni hátt í fimm hundruð nemendur og kennarar skólanna á heimsókn í VMA. Kærar þakkir öll fyrir komuna!