Fara í efni

Grunnskólanemar á skólabekk í VMA

Nemendur úr grunnskólum Akureyrar í VMA.
Nemendur úr grunnskólum Akureyrar í VMA.

Það er eitt og annað sem smám saman er að þokast í venjubundinn farveg eftir að kóvidfaraldurinn gekk yfir. Eitt af því sem VMA bauð upp á fyrir kóvid var að nemendur úr grunnskólum Akureyrar, í níunda og tíunda bekk, kæmu í skólann til að taka valnámskeið af ýmsum toga. Þessi námskeið, sem nú er sem sagt byrjað aftur að bjóða upp á í VMA, eru hlutivalgreina nemenda í efstu bekkjum grunnskóla Akureyrar. Núna á haustönn er annars vegar boðið upp á nám á sjúkraliðabraut og hins vegar í framreiðslu (þjónn) á matvælabraut. Á vorönn geta nemendur valið um rafiðn, matreiðslu og listnám í VMA.

Grunnskólanemarnir sækja kennslustundir í VMA í hverri viku út þessa önn og fá fræðslu af ýmsum toga. Þegar litið var inn á sjúkraliðabraut í liðinni viku var María Albína Tryggvadóttir, brautarstjóri hjúkrunargreina í VMA, að fara yfir mikilvægi handþvottar og almenns hreinlætis. Ekki vanþörf á því heldur betur hefur handþvotturinn verið ofarlega á baugi síðustu ár í heimsfaraldrinum og nú er það spurningin, þegar kló faraldursins virðist smá saman að vera að sleppa takinu á heimsbyggðinni, hvort fólk heldur uppteknum hætti og passar upp á handþvottinn? Vonandi verður það eitt af því sem kóvid hefur kennt fólki til framtíðar að gæta vel að.