Fara í efni

Grunndeildarnemar í rafiðngreinum fá spjaldtölvur að gjöf

Gefendur, nemendur, skólastjórnendur og kennarar.
Gefendur, nemendur, skólastjórnendur og kennarar.

Í mörg undanfarin ár hafa Rafiðnaðarsambandið, SART – Samtök rafverktaka og Rafmennt tekið höndum saman um að gefa öllum nýnemum í rafiðngreinum, sem að þessu sinni eru 37 talsins, spjaldtölvur. Síðastliðinn föstudag komu tveir fulltrúar Rafmenntar – Bára Laxdal Halldórsdóttir, verkefnastjóri Rafbókar, og Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmenntar og Jónas Ragnarsson, fulltrúi SART, færandi hendi í VMA og afhentu nýnemum í grunndeild rafiðna Lenovo spjaldtölvur að gjöf.

Auk nemenda voru viðstaddir afhendingu spjaldtölvanna kennarar í rafiðndeild í VMA, Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari, Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari og Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms í VMA.

Með því að gefa nemendum í rafiðn spjaldtölvur vilja gefendur styðja við nám þeirra og stuðla að því að nemendur nýti sér möguleika til þess að nálgast rafrænt námsefni og hlaða því niður á tölvur en mikið af kennsluefni í rafiðngreinum er aðgengilegt á vefnum Rafbók.is.

Rafbók er netbókasafn rafiðnaðarins, rafrænt skráarsafn með námsefni fyrir rafiðnaðarnema. Þar er einnig að finna handbækur sem nýtast rafiðnaðarmönnum og tengla á ýmsar gagnlegar síður sem tengjast rafiðnaði. Aðgangur að rafbok.is er öllum heimil og notendum endurgjaldslaus.

Sigríður Huld Jónsdóttir þakkaði gefendum fyrir hönd VMA fyrir rausnarlega gjöf og sagði nemendur á rafiðnbraut vera heppna að njóta slíks stuðnings í námi sínu, hann væri skólanum og nemendum ómetanlegur. Námið í rafiðngreinum í VMA væri framsækið þar sem öflugir kennarar væri ófeimnir að feta nýja slóðir í kennslunni með m.a. rafrænum lausnum. Þessar nýju spjaldtölvur komi því til með að nýtast nemendum mjög vel í námi sínu.