Fara í efni

Grill í gær - dimmision í dag

Málmiðnaðarnemar efndu til grillveislu í gær.
Málmiðnaðarnemar efndu til grillveislu í gær.

Dimmision er í dag í VMA. Merkur dagur að sjálfsögðu fyrir alla þá nemendur sem ljúka námi núna í maí eða fyrir næstu jól. Að venju taka nemendur daginn snemma og keyra um bæinn árla dags og kveðja kennara sína út um allan bæ. Síðan verður ekið aftur upp í skóla um það leyti sem venjubundinn skóladagur hefst og síðan verður að venju brugðið á leik í Gryfjunni þar sem m.a. útskriftarnemar og starfsmenn skólans reyna með sér í hinum ýmsu þrautum.

Brautskráningarnemar í málmiðnaðardeild tóku forskot á sæluna og efndu til grillveislu í hádeginu í gær með kennurum sínum, Herði og Kristjáni. Síðdegis tók síðan við undirbúningur fyrir dimmision í dag.

Þó svo að útskriftarnemendur geri sér glaðan dag í dag er skólinn þó ekki alveg búinn hjá þeim. Síðustu kennsludagarnir eru framundan – á morgun og frá þriðjudegi til föstudags í næstu viku og síðan taka prófadagarnir við. Brautskráning verður síðan 27. maí.