Fara í efni

Greinir aukinn kvíða nemenda vegna covid 19

Jóhanna Bergsdóttir sálfræðingur VMA.
Jóhanna Bergsdóttir sálfræðingur VMA.

Jóhanna Bergsdóttir sálfræðingur VMA segist merkja aukinn kvíða hjá nokkrum þeirra nemenda sem leiti til sín eftir að heimsfaraldur covid 19 skall á. Hún segir að nemendur óttist ekki að smitast af veirunni en miklu frekar að smita aðra, bæði ættingja og vini, og einnig kvíði nemendur því ef þyrfti að loka VMA aftur vegna faraldursins, eins og var raunin var frá og með 16. mars sl. Jóhanna segist skynja að ungt fólk sé almennt vel upplýst um stöðu mála og geri sér ljósa grein fyrir mikilvægi persónulegra smitvarna og að það vilji almennt virða fjarlægðamörk. Hún segir að nemendur hafi í sín eyru haft orð á því að þeir séu hneykslaðir á því að margir sem eldri eru virði ekki fjarlægðamörk sem skyldi, t.d. í verslunum.

Jóhanna hóf störf sem sálfræðingur í Verkmenntaskólanum í janúar 2018 og hefur verið það síðan. Skrifstofa hennar er í rýminu M07,  beint á móti norðurinngangi skólans. Jóhanna var áður í 50% stöðu en er nú í 75% stöðu sálfræðings við skólann.

Sálfræðiþjónusta er nemendum afar mikilvæg, ekki síst á tímum eins og nú, þegar þjóðfélagið og raunar allur heimurinn hefur á ótrúlega skömmum tíma tekið gríðarlegum breytingum vegna covid 19. Allt þetta umrót í samfélagsgerðinni hefur vakið upp ótal spurningar, hræðslu og kvíða fyrir framtíðinni og það á jafnt við um unga fólkið og þá sem eldri eru.

Jóhanna segir afar mikilvægt að geta boðið nemendum upp á slíka sálfræðiþjónustu, ekki síst núna þegar þeir upplifi mikla óvissu um það sem bíði handan hornsins. „Ég er hér í skólanum kl. 8-16 á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum og kl. 8-14 á fimmtudögum. Nemendur bóka tíma og einnig vinn ég náið með námsráðgjöfum og kennurum skólans. Auk þess er ég með opna tíma kl. 11-11.30 þar sem nemendur geta komið hingað án fyrirvara ef þeim liggur eitthvað á hjarta. Almennt er ég mjög ánægð með að nemendur koma hingað til mín í auknum mæli til þess að spjalla um ýmislegt sem þeir þurfa að deila með öðrum. Það er afar mikilvægt og ég er hér til þess einmitt að vera til staðar fyrir nemendur,“ segir Jóhanna en að jafnaði segir hún að á bilinu 50-60 nemendur komi í viðtalstíma til sín á hverri önn. Af þeim nemendum sem leita til Jóhönnu segir hún að séu á bilinu 20-40% nýnemar – stúlkur eru í meirihluta eða um 60% en piltar 40%. „Einu sinni í viku hitti ég námsráðgjafa, forvarnafulltrúa og hjúkrunarfræðing skólans þar sem við förum yfir málin. Þeir samráðsfundir eru mjög þarfir og góðir,“ segir Jóhanna.

Auk þess að vera til viðtals við nemendur ræðir Jóhanna við nýnema í lífsleikni. Hún segist lengi hafa átt sér draum um að í boði væri sérstakur áfangi í skólanum um andlega líðan, þar sem nemendum yrðu kynnt ýmis þau „verkfæri“ sem til séu til þess að hjálpa fólki, t.d. núvitund, hugræn atferlismeðferð og margt fleira. Vonandi verði þessi draumur einhvern tímann að veruleika.