Grunnurinn þarf að vera traustur
Um fjörutíu nemendur hefja nú nám í grunndeild rafiðna í VMA og hafa þeir ekki verið fleiri í mörg ár. Rafiðngreinar hafa lengi notið vinsælda og er þessi námsbraut í hópi stærstu námsbrauta skólans. Að loknu grunnnámi velja nemendur um að læra rafvirkjun eða rafeindavirkjun og þess eru mörg dæmi að nemendur útskrifist af báðum námsbrautum. Ekki er áskilið að ljúka stúdentsprófi til þess að verða rafvirki eða rafeindavirki en margir bæta við sig þeim námsgreinum sem upp á vantar til þess að ljúka stúdentsprófi.
Núna á haustönn eru þrír námshópar í grunndeild rafiðna og eins og vera ber fara kennararnir fyrst í grunnatriðin, bæði bókleg og verkleg, enda er það auðvitað svo að grunnurinn þarf að vera góður til þess að byggja ofan á hann.
Þegar litið var inn í verklegan tíma hjá Birni Hreinssyni brautarstjóra voru grunndeildarnemar að æfa sig í því að lóða. Þetta er eitt af grunnatriðunum sem nemendur þurfa að vera vel þjálfaðir í, því það er nú svo að þegar á hólminn er komið í bæði rafvirkjuninni og rafeindavirkjuninni geta alltaf komið upp tilvik þar sem þarf að lóða. Þá er nauðsynlegt að kunna til verka.