Fara í efni

Ljómandi líf á heimavistinni

Lundur - heimavist MA og VMA.
Lundur - heimavist MA og VMA.

Á heimavist MA og VMA búa nú um 280 nemendur og stunda um 170 þeirra  nám í VMA og um 110 í MA. Heimavistin er því stórt samfélag þar sem mikil áhersla er lögð á að íbúum líði sem allra best enda er heimavistin þeirra heimili á meðan á námi stendur. Þegar flest var voru 330 nemendur á heimavistinni en þeim hefur fækkað eftir að þriggja ára námi til stúdentsprófs var komið á í framhaldsskólunum. Það þýðir þó ekki að nú séu um fimmtíu heimavistarrými laus því skipulagið hefur breyst og rýmra er um íbúa vistarinnar en var þegar þar bjuggu um 330 nemendur. Þóra Ragnheiður Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Lundar - heimavistar MA og VMA, segir þó að hægt sé að bæta við íbúum og hvetur hún þá sem hafa áhuga á að búa á heimavistinni að hafa samband og fá upplýsingar og/eða sækja um.

Íbúar heimavistarinnar koma af öllu landinu en eins og gefur að skilja eru flestir úr nágrannasveitarfélögunum. Þá eru alltaf einhverjir íbúar sem eiga lögheimili erlendis en kjósa að koma í framhaldsskólana á Akureyri og búa á heimavistinni.

Eins og nærri má geta hefur covid faraldurinn haft áhrif á starfsemi heimavistarinnar líkt og annars staðar í samfélaginu en Þóra segir að allt hafi gengið að óskum enda íbúarnir staðið sig vel í að fylgja þeim fyrirmælum um sóttvarnir sem hafi verið í gildi hverju sinni. Hún segir að nú sé grímuskylda í opnum rýmum heimavistarinnar en opnað hafi verið fyrir gestakomur og næturgesti á heimavistinni. Þóra segir að sem betur fer hafi ekki komið upp smit  á heimavistinni en dæmi séu um að íbúar hafi þurft að fara í bæði sóttkví og úrvinnslusóttkví sem sé ekki óeðlilegt á svo stóru heimili.

Mikið er lagt upp úr því að hafa heimavistina heimilislega og notalega. Í gömlu setustofunni á heimavistinni er engu líkara en að tíminn hafi staðið í stað. Þar eru útveggir og klæðning eins og á síðari hluta síðustu aldar, píanóið er á sínum stað og komið hefur verið fyrir tveimur billjarðborðum og borðtennisborði og þar er líka stórt sjónvarp. Setustofan gegnir mikilsverðu hlutverki þar sem nemendur geta sest niður og spjallað saman og notið þeirrar afþreyingar sem er í boði. Þóra segir að lögð hafi verið áhersla á að varðveita að mestu útlit setustofunnar eins og það hafi verið í áratugi, sem geri setustofuna notalega. Áhugavert er að sjá þetta myndband frá djassleik þeirra bræðra Ingimars og Finns Eydals, Árna Ketils Friðrikssonar trommara og Sævars Benediktssonar bassaleikara í setustofu heimavistarinnar á áttunda áratug síðustu aldar. Þessi upptaka var gerð fyrir Ríkisútvarpið og má glögglega sjá hversu lítið setustofan hefur breyst í meira en fjörutíu ár.

Íbúar heimavistarinnar borða í matsal í kjallara eldra húsnæðis heimavistarinnar, þar sem hefur verið starfrækt mötuneyti fyrir framhaldsskólanema í áratugi. Hægt er að velja um fæðuflokka en flestir nemendur úr VMA kjósa að vera í morgun- og kvöldmat á vistinni en borða frekar hádegismatinn í skólanum.

Til marks um góða þjónustu við íbúa heimavistarinnar er afar vel búið þvottahús í kjallara heimavistarinnar þar sem íbúar geta komið með óhreinan þvott og fengið hann síðan þveginn og strokinn. 

Þá er ástæða til þess að nefna að heimavistarbúar hafa aðgang að hjúkrunarfræðingi tvisvar í viku ef eitthvað ber út af, sem er vitaskuld mikilsvert öryggisatriði fyrir þá. 

Í tengslum við grunnskólakynningar framhaldsskólanna hafa grunnskólanemendur úr nágrannasveitarfélögunum komið í heimsókn og fengið kynningu starfsfólks og íbúa á heimavistinni. Þessar kynningar segir Þóra mikilvægar, enda skipti máli fyrir nemendur að koma, sjá og upplifa hvernig heimilislífið gengur fyrir sig. Auk þessara grunnskólanemakynninga segir Þóra að áhugasamir geti alltaf haft samband við stjórnendur heimavistarinnar og/eða kynnt sér þær upplýsingar sem eru á heimasíðu heimavistarinnar, en þar er m.a. kynningarmyndband sem íbúar áttu veg og vanda að.