Fara í efni

Gott félagslífi byggist á góðri samvinnu

Stjórn Þórdunu nemendafélags 2016-2017.
Stjórn Þórdunu nemendafélags 2016-2017.

Mikilvægur þáttur í skólastarfinu er öflugt félagslíf nemenda og þar ber stjórn Þórdunu – nemendafélags VMA hitann og þungann með Pétri Guðjónssyni, viðburðastjóra skólans. Það er óhætt að segja að félagslífið hefjist af krafti því einn af stærri viðburðum vetrarins verður strax í október þegar Leikfélag VMA hyggst frumsýna söngleikinn Litlu hryllingsbúðina í leikstjórn Birnu Pétursdóttur.

Kristján Blær Sigurðsson, formaður stjórnar Þórdunu, segir mikilvægt að ná góðu samstarfi við nemendur um gott og öflugt félagslíf . „Ég vil sjá nemendur vinna að góðu félagslífi. Það er mín von að nemendur skólans leggi félagslífinu á einn eða annan hátt lið því þetta byggist fyrst og fremst á góðri samvinnu allra sem að þessu koma. Nýnemarnir skipta miklu máli, okkur tókst ágætlega að virkja nýnemana á síðasta skólaári og því viljum við halda áfram í vetur,“ segir Kristján Blær. Hann segir að það sé vissulega stórt og krefjandi verkefni að vera formaður nemendafélags í svo stórum skóla en hann ætli að einbeita sér að því verkefni sem hann mest hann megi í vetur til hliðar við nám hans á íþróttabraut. Undanfarin ár hefur Kristján Blær verið liðsstjóri Akureyrar handboltafélags en segist hafa dregið sig út úr því verkefni í vetur vegna anna sem formaður Þórdunu.

Sem fyrr segir verður stóra verkefnið á haustönn uppfærsla í Samkomuhúsinu á Akureyri á Litlu hryllingsbúðinni og er frumsýning áætluð 21. október. „Ástæðan fyrir því að leikritið verður sýnt í október er sú að á þessum tíma getum við fengið afnot af Samkomuhúsinu, við hefðum ekki getað fengið afnot af því eftir áramót. Auðvitað er ljóst að við verðum að vinna hratt en við trúum því og treystum að þetta muni ganga vel upp. Við höfum nú þegar unnið töluverða undirbúningsvinnu fyrir uppsetninguna, sem er mikilvægt þegar svo skammur tími er til stefnu. Við verðum með prufur fyrir leikritið strax 30. ágúst og síðan hellum við okkur í æfingar. Við erum búin að ráða Friðrik Ómar Hjörleifsson til þess að vinna tónlistina og Hera Björk kemur til með að æfa sönginn í verkinu,“ segir Kristján Blær.

En áður en kemur að Litlu hryllingsbúðinni verður efnt til nýnemahátíðar og nýnemaballs, sem verður 1. september nk.  Á önninni verður einnig uppistandskvöld, karla- og konukvöld, metakvöld og fleira.