Fara í efni

Góður tímapunktur að breyta til

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA.
Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA.

Hjalti Jón Sveinsson skólameistari brautskráir nemendur frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í síðasta skipti þann 19. desember nk. Hann hefur verið skólameistari VMA undanfarin sextán ár en eins og fram hefur komið tekur hann um áramót við starfi skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík. Í blaðinu Akureyri, sem kemur út í dag og er dreift með Morgunblaðinu og í öll hús á Akureyri, er m.a. birt eftirfarandi viðtal í tilefni af því að Hjalti Jón lætur brátt af starfi sínu sem skólameistari VMA.

„Ég byrjaði sem kennari 23ja ára gamall. Þá var ég að læra íslensku í Háskóla Íslands. Ég var fenginn til þess að hlaupa í skarðið fyrir Aðalstein Eiríksson íslenskukennara, síðar skólameistara Kvennaskólans, sem var í leyfi frá störfum, og allt í einu var ég kominn í fulla kennslu í Kvennaskólanum með fullu íslenskunámi í Háskólanum. Á þessum tíma var Kvennaskólinn með unglingastig og bráðklárar stelpur reyndu oft að reka unga kennarann á gat! Þarna var ég í fimm vetur og sömuleiðis var ég í einn vetur hjá Jóni Böðvarssyni í nýjum skóla, Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þá var ég einn vetur í afleysingum í kennslu í bókmenntum og íslensku í Verzlunarskóla Íslands. Ég kenndi því á þessum tíma í sjö ár. Síðan fór ég að gera ýmislegt annað, var m.a. ritstjóri tímarita og í blaðamennsku. Var þar næst í fjögur ár í Þýskalandi í námi og vinnu. Þegar þarna var komið sögu hafði ég náð mér í magisterpróf í íslensku og bætti við mig kennsluréttindunum. Mig var farið að langa til þess að kenna aftur og gat raunar líka hugsað mér að fara í stjórnun, ef slíkt væri í boði. Þá hittist þannig á að skólameistarastarfið á Laugum var auglýst og ég var ráðinn þangað árið 1994. Ég var fimm ár á Laugum og það var mjög skemmtilegur tími. Síðan losnaði starf skólameistara hér í VMA. Ég hafði fylgst með uppbyggingu skólans og fannst hann mjög áhugaverður. Ég ákvað því að sækja um og var svo lánsamur að fá starfið og hér hef ég verið skólameistari í sextán ár. Þar af var ég eitt skólaár, 2011-2012, í námsleyfi og nýtti það til endurmenntunar í Háskólanum á Akureyri.“

Hringnum verði lokað
Hjalti Jón segir að þegar starf skólameistara Kvennaskólans hafi verið auglýst hafi hann ákveðið að sækja um. Þetta hafi að hans mati verið góður tímapunktur að breyta til, eftir langan og góðan tíma í VMA. Þar með sé hringnum lokað því í Kvennaskólanum hafi hann hafið sinn kennsluferil forðum daga.
Hjalti Jón er þakklátur fyrir þann tíma sem hann hafi verið við stjórnvölinn í VMA. „Þetta hefur verið mjög góður tími. Það sem stendur alltaf upp úr í starfinu eru samskiptin við nemendur. Mér finnst alltaf jafn gaman að taka á móti nýjum nemendum að hausti og jafnframt að kveðja árganga að vori. Og að sjálfsögðu líka að vera innan um allt þetta góða starfsfólk, kennara og aðra starfsmenn. Þetta er stór skóli og fjölmennur vinnustaður. Mér telst til að ég sé búinn að útskrifa um 3500 nemendur frá VMA á þessum tíma! Skólinn hefur þroskast og þróast í þessi ár og ég hef þá tilfinningu að fyrir honum og því starfi sem hér er unnið sé borin ákveðin virðing úti í samfélaginu.“
En hvernig tilfinning er að fara frá þessum stóra skóla eftir sextán ára starf? „Mér finnst hún bara góð. Auðvitað mun maður sakna margs hér en ég er sáttur við að skilja við skólann eins og hann er núna. Það hafa vissulega verið erfiðir tímar síðustu ár vegna fjárhagsþrenginga en ég held að skólinn sé mjög vel búinn undir framtíðina. Við höfum tekið upp nýja námsskrá og nýjar námsbrautir til stúdentsprófs og síðan er mikill kraftur í verknáminu hjá okkur og einnig tel ég að í framtíðinni verði aukin áhersla á hverskonar hönnun.“

Öðruvísi áskoranir – sömu viðfangsefni
Kvennaskólinn er hreinn bóknámsskóli og nemendur þar eru mun færri en í VMA. Hjalti Jón segir að starf hans sem skólameistari þar verði eilítið frábrugðið starfinu í VMA. „Þetta verða aðeins öðruvísi áskoranir en engu að síður eru viðfangsefnin í grunninn þau sömu.“
Þrátt fyrir að hefja nýtt starf í Reykjavík um áramót verður Hjalti Jón fyrst um sinn með annan fótinn á Akureyri. „Konan mín, Soffía Lárusdóttir, er í starfi hjá Akureyrarbæ og við munum gefa okkur góðan tíma til þess að skoða hvað henni býðst syðra. Við eigum orðið íbúð fyrir sunnan og þar er stór hluti fjölskyldna okkar beggja. Og hestarnir okkar fara suður í vetur. Án þeirra get ég ekki verið lengi,“ segir fráfarandi skólameistari og hestamaðurinn Hjalti Jón Sveinsson.