Góður gangur
Það hefur heldur betur verið góður gangur í byggingu þriggja frístundahúsa í byggingadeild VMA frá því að haustönnin hófst. Tvö húsanna voru reist um miðjan september og það þriðja, eða í það minnsta hluti þess, hefur verið í byggingu innan dyra en verður væntanlega fært út síðar í þessari viku.
Bygging frístundahúsanna er mikilvægur þáttur í námi húsasmíðanema á öðru ári enda er komið inn á fjölmargt sem gott er að verðandi húsasmiðir hafi góða innsýn í varðandi byggingu timburhúsa. Eftir að tvö af húsunum voru reist utanhúss í september sl. hefur verið unnið að því að loka þeim og klæða þau. Sú vinna er langt komin. En einnig hefur verið unnið inni í húsunum og þar koma líka við sögu nemendur í pípulögnum og um raflagnir sjá nemendur í rafiðn.
Eftir áramót halda nemendur áfram með byggingu húsanna, alveg til vors, og þá bætist vitaskuld við frágangur húsanna að innan, smíði og uppsetning innréttinga o.fl.
Svo mikið er víst að hér er vandað til verka og þegar þar að kemur mun fara vel um gesti í þeim á tjaldsvæðinu á Hömrum sunnan Akureyrar.