Fara í efni

Góður árangur VMA-keppenda í Flensborgarhlaupinu

VMA-nemar í 3 efstu sætum í 10 km 17 ára og yngri.
VMA-nemar í 3 efstu sætum í 10 km 17 ára og yngri.
Enskukennarinn Anna Berglind Pálmadóttir heldur áfram að gera það gott á hlaupabrautinni. Í ágúst sl. varð hún næstfljótust kvenna í hálfmaraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu og í gær var hún fljótust kvenna í 10 km í Flensborgarhlaupinu í Hafnarfirði. VMA-stúlkur voru í þremur efstu sætunum í flokki 17 ára og yngri og í karlaflokki í 17 ára og yngri átti VMA fulltrúa í þriðja sæti. Í framhaldsskólahlaupinu voru VMA-piltar í þriðja og fjórða sæti.

Enskukennarinn Anna Berglind Pálmadóttir heldur áfram að gera það gott á hlaupabrautinni. Í ágúst sl. varð hún næstfljótust kvenna í hálfmaraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu og í gær var hún fljótust kvenna í 10 km í Flensborgarhlaupinu í Hafnarfirði. VMA-stúlkur voru í þremur efstu sætunum í flokki 17 ára og yngri og í karlaflokki í 17 ára og yngri átti VMA fulltrúa í þriðja sæti. Í framhaldsskólahlaupinu voru VMA-piltar í þriðja og fjórða sæti.

Metþátttaka var í Flensborgarhlaupinu að þessu sinni og í heildina hlupu um fjögur hundruð manns – þar af 93 í 10 km, 156 í 5 km og 150 í 3 km skemmtiskokki. Þrettán nemendur úr VMA tóku þátt í hlaupinu og fjórir starfsmenn fóru með þeim suður yfir heiðar í gærmorgun; Anna Berglind Pálmadóttir, sem tók þátt í 10 km hlaupinu, og Ásdís Birgisdóttir, Valgerður Dögg Jónsdóttir og Jónas Jónsson, sem öll tóku þátt í 5 km hlaupinu. Hlaupið var seinnipartinn í gær og kom hópurinn norður í dag.

Sem fyrr segir gerði Anna Berglind Pálmadóttir sér lítið fyrir og hljóp kílómetrana tíu á 40:21 – á um hálfri annarri mínútu betri tíma en keppandinn í öðru sæti.

Í tíu kílómetra hlaupinu tóku nokkrir VMA-nemar einnig þátt og var hlaupið jafnframt framhaldsskólahlaup sem þýddi að krýndur var framhaldsskólameistari í 10 km hlaupi. Stefán Þór Jósefsson varð í þriðja sæti í framhaldsskólahlaupinu á 41:11 og Ágúst Örn Víðisson í því fjórða á tímanum 41:44.

Í aldursflokki 17 ára og yngri urðu VMA-stúlkurnar Oddrún Inga Marteinsdóttir og Ingibjörg Dís Níelsdóttir fyrstar og jafnar á 1:03:11 og í þriðja sæti var þriðja VMA-stúlkan Karen Alfa Rut Kolbeinsdóttir á tímanum 1:09:28. Ágúst Örn Víðisson, varð þriðji í karlaflokki 17 ára og yngri.

Í það heila kom því VMA-fólk norður með sex verðlaunapeninga norður yfir heiðar úr Flensborgarhlaupinu – fimm nemendur og einn kennari – sem verður bara að teljast ansi gott.

Anna Berglind Pálmadóttir segir að þessi ferð hafi verið mjög skemmtileg og eftir því hafi verið tekið að VMA gerði sér ferð suður yfir heiðar til þess að taka þátt í hlaupinu. "Við fengum frábærar móttökur og okkur var hampað og þakkað að leggja það á okkur að koma suður til þess að taka þátt í hlaupinu. Þetta var mjög skemmtilegt," segir Anna Berglind.

Á meðfylgjandi mynd eru VMA-stúlkur á verðlaunapalli fyrir að vera fyrstar í 10 km í flokki 17 ára og yngri. Frá vinstri: Karen Alfa Rut Kolbeinsdóttir, Ingibjörg Dís Níelsdóttir og Oddrún Inga Marteinsdóttir.

Hér má sjá heildarúrslit í hlaupinu og myndir úr hlaupinu.