Fara í efni

Góðir gestir úr Húnaþingi vestra

Ánægjuleg heimsókn nemenda úr Húnaþingi vestra.
Ánægjuleg heimsókn nemenda úr Húnaþingi vestra.

Um fimmtíu nemendur úr 8. 9. og 10. bekk úr Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga auk kennara þeirra sóttu VMA heim í gær og kynntu sér sérstaklega verk- og listnám skólans. Nemendurnir eru búsettir á Hvammstanga og í nágrannasveitum. Áður voru tveir grunnskólar í sveitarfélaginu, á Hvammstanga og Laugabakka, en skóli á síðarnefnda staðnum hefur verið aflagður og allir nemendur í sveitarfélaginu sækja nú grunnskólann á Hvammstanga.

Námsráðgjafarnir Ásdís Birgisdóttir og Svava Hrönn Magnúsdóttir tóku á móti gestunum og greindu þeim í stuttu máli frá námsframboði VMA og ýmsu er lýtur að skólastarfinu. Síðan var nemendahópnum skipt upp í þrjá minni hópa og námsráðgjafarnir auk Baldvins Ringsted, sviðsstjóra verk- og fjarnáms, fóru með þeim á verknámsbrautirnar og listnáms- og hönnunarbraut. Að því loknu upplýstu forráðamenn Nemendafélagsins Þórdunu gestina um félagslífið í skólanum.

Það er fastur liður í starfi Grunnskóla Húnaþings vestra að elstu bekkjardeildirnar bregði sér af bæ og kynni sér námsframboð framhalds- og háskóla. Áður hefur verið farið suður yfir heiðar og kíkt í heimsókn í Háskóla Íslands og einnig hefur verið farið í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Í þessari tveggja daga heimsókn til Akureyrar var Háskólinn á Akureyri sóttur heim í fyrradag og einnig var þá farið í heimsókn í annars vegar Norðlenska og hins vegar Norðurorku. Að lokinni heimsókn krakkanna í VMA í gær lá leiðin í Menningarhúsið Hof þar sem boðið var upp á skoðunarferð og síðasta heimsóknin var í hin nýju Vaðlaheiðargöng – sem allt stefnir í að verði opnuð á næsta ári.

Það er ætíð ánægjulegt að fá nemendahópa í heimsókn í VMA til þess að kynna sér fjölbreytt starf skólans. Heimsókn nemenda og kennara þeirra úr Húnaþingi vestra í gær var einkar ánægjuleg. Takk fyrir komuna!