Fara í efni

Góðir gestir frá Þrándheimi

Nemendurnir frá Charlottenlund með kennara sínum.
Nemendurnir frá Charlottenlund með kennara sínum.

Síðastliðinn sunnudag komu til Akureyrar fjórar stúlkur, textílnemendur, ásamt kennara sínum frá framhaldsskólanum Charlottenlund í Þrándheimi í Noregi og munu þær dvelja á Akureyri þessa viku og næstu og kynna sér námið í VMA auk þess að heimsækja gallerí og ýmsar listasmiðjur á Akureyri. Ferðin er styrkt af Erasmus.

Undanfarin ár hefur verið mjög gott samstarf milli Charlottenlund og VMA, enda skólarnir á margan hátt svipaðir, með blöndu af verklegu og bóklegu námi. Bæði nemendur og kennarar frá báðum skólum hafa skipst á heimsóknum og fóru sex textílnemendur frá VMA ásamt tveimur kennurum til Þrándheims í septemer sl. og kynntu sér námið þar og heimsóttu listasmiðjur í borginni. Tókst sú ferð með miklum ágætum og voru þátttakendur í ferðinni mjög ánægðir með hvernig til tókst.

Og nú er VMA sem sagt gestgjafinn og sl. mánudag komu stúlkurnar ásamt kennara sínum, Halldis Berg, í skólann og hafa nú þegar kynnt sér og tekið þátt í fjölbreyttum kennslustundum á listnámsbraut. Og framundan er skemmtileg og fjölbreytt dagskrá með blöndu af kennslustundum í VMA og heimsóknum á söfn, gallerí og listasmiðjur á Akureyri. Og auðvitað verður tíminn einnig nýttur til skoðunarferða um nágrennið, t.d. er m.a. áætluð skoðunarferð í Mývatnssveit.

Stúlkurnar fjórar frá Charlottenlund sem núna eru í heimsókn í VMA koma víða að úr Noregi, ein þeirra er frá Þrándheimi, önnur frá Tromsö og tvær frá minni stöðum í nágrenni Þrándheims. Þær eru á fyrstu önn í textílnáminu í Charlottenlund en í það heila er námið tvö ár auk tveggja ára á vinnustað. Námið í VMA er því töluvert frábrugðið því sem þekkist í Charlottenlund.

Á meðfylgjandi mynd eru norsku stúlkurnar fjórar með kennara sínum. Standandi frá vinstri: Alhalabi Nour, Julie Johansen og Halldis Berg. Sitjandi frá vinstri: Andrea Vasseng og Anne Gausen Forve