Fara í efni

Góðir gestir frá Randers

Góðir gestir frá Randers í heimsókn í VMA.
Góðir gestir frá Randers í heimsókn í VMA.

Þessa viku eru fjórar konur frá Randers, sem er vinabær Akureyrar í Danmörku, í heimsókn í VMA og er heimsóknin liður í farsælu samstarfi sem hefur verið undanfarin ár milli VMA og SOSU (Randers Social- og Sunhedsskole).

Markmiðið með heimsókn gestanna frá Randers er að skoða starfið í VMA og kynna sér þá vinnustaði á Akureyri þar sem sjúkraliðanemar frá Randers hafa tekið verknám, annars vegar dvalarheimili aldraðra og hins vegar Kristnes en þar er endurhæfingar- og öldrunardeild Sjúkrahússins á Akureyri. Sem stendur er einn nemandi frá Randers í nokkurra vikna starfsnámi á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Tvær kvennanna frá Randers sem nú sækja Akureyri heim eru kennarar í Randers Social- og Sunhedsskole, ein er sjúkraliði á heilbrigðisstofnun í Randers og sú fjórða er starfsmaður á heilbrigðissviði Randersborgar .

María Albína Tryggvadóttir, brautarstjóri sjúkraliðabrautar VMA, segir að sjúkraliðabrautin sé í samstarfi við bæði SOSU í Randers og einnig skóla í Lahti í Finnlandi. Nemendur frá VMA dvelji í nokkrar vikur í annars vegar Lahti og hins vegar Randers og starfi þar á heilbrigðisstofnunum, rétt eins og nemendurnir frá Randers taka hluta af sínu verknámi á heilbrigðisstofnunum hér. María segir þessar gagnkvæmu heimsóknir mikilvægar fyrir nemendur því með þessu móti gefist þeim tækifæri til þess að víkka út sjóndeildarhringinn og kynnast mögulega nýjum starfsaðferðum.

Óhætt er að segja að Akureyri/Ísland fái góða einkunn hjá tveimur konum sem eru nemendur í Randers Social og Sunhedsskole en þær tóku fimm vikna verknám á Akureyri. Frá þessu segja þær í skemmtilegu spjalli sem birtist 26. október sl. á heimasíðu Randers Social og Sunhedsskole