Fara í efni

Góðir gestir frá Móstoles á Spáni

Sara Saugar og Almudena Redondo frá Móstoles í útjaðri Madrídar á Spáni.
Sara Saugar og Almudena Redondo frá Móstoles í útjaðri Madrídar á Spáni.

Í vikunni fyrir páska voru tveir gestakennarar frá Spáni, Sara Saugar og Almudena Rdondo, í heimsókn á matvælabraut VMA þar sem þær kynntu sér íslenska matarmenningu og deildu ýmsu skemmtilegu frá sínu heimalandi til nemenda og kennara í VMA - bæði til grunndeildarnema og nemenda sem eru nú í þriðja bekk matreiðslunáms í VMA. Komu Sara og Almudena hingað með styrk Erasmus + styrkjaáætlunar ESB.

Sara og Almudena eru báðar kennarar við skóla í Móstoles í útjaðri Madrídar á Spáni, sem ber heitið CIFP Simone Ortega Escuela de Hostelería y TurismoÞetta er verknámsskóli, á ýmsa lund ekki ósvipaður skóli og VMA, með um átta hundruð nemendur.

Þegar upp kom sá möguleiki að fara í slíka kynningarheimsókn út fyrir Spán sögðust þær strax hafa haft mestan áhuga á horfa í norður, fara til lands með ólíka menningu, framandi náttúru og fleira. Þar sem hvorug þeirra hafði komið til Íslands voru þær ekki lengi að ákveða að fara þangð og fá tækifæri til þess að heimsækja VMA. Þær létu afar vel af dvölinni, sögðust hafa kynnst mörgu nýju sem eigi eftir að nýtast þeim vel í kennslunni í heimalandinu og einnig hafi verið mjög gaman að kenna nemendunum í VMA eitt og annað úr spænskri matarmenningu. Auk þess að kenna og læra í VMA höfðu þær tækifæri til þess að skoða sig um í nágrenninu, m.a. í Mývatnssveit, og hrifust mjög af því sem fyrir augu bar.