Fara í efni

Góðir gestir frá Hornafirði

Krakkarnir úr Grunnskóla Hornafjarðar og kennarar þeirra við lok heimsóknar í VMA í gær.
Krakkarnir úr Grunnskóla Hornafjarðar og kennarar þeirra við lok heimsóknar í VMA í gær.

Það er alltaf jafn ánægjulegt að fá grunnskólanemendur í heimsókn í VMA. Á hverri haustönn koma nemendur 9. og 10. bekkjar grunnskólanna á Akureyri og úr nágrannabyggðum í heimsókn í skólann til þess að kynna sér fjölbreytt námsframboð og safna upplýsingum í sarpinn fyrir ákvörðun um hvaða nám skuli velja að loknum grunnskóla.

Það er ekki á hverjum degi sem grunnskólanemar í um 500 kílómetra fjarlægð frá Akureyri koma í heimsókn. En það gerðist í gær þegar hópur nemenda 8. bekkjar Grunnskóla Hornafjarðar og kennarar þeirra sóttu VMA heim

Fastur liður í skólastarfinu á Höfn í Hornafirði hefur verið að fara í skíðaferð með hluta nemenda skólans. Oft hefur verið farið í dagsferð á skíðasvæðið í Oddskarði og þá hefur í leiðinni verið farið í heimsókn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. En að þessu sinni lá leiðin til Akureyrar. Í það heila voru um fjörutíu nemendur í ferðinni, úr 6. og 8. bekk, auk kennara. Hópurinn kom til Akureyrar sl. mánudag og fór þá strax á skíði. Nemendur 8. bekkjar komu síðan í heimsókn í VMA í gærmorgun og nýttu síðan seinnipartinn á skíðum og haldið verður síðan heim á leið í dag, miðvikudag. Hópurinn hefur gist á Backpackers í Hafnarstræti.

Það var sérlega ánægjulegt að fá krakkana frá Hornafirði og kennara þeirra í heimsókn í VMAí gær og fá tækifæri til þess að sýna þeim skólann og segja þeim frá skólastarfinu. Þeim er þökkuð heimsóknin og sendar bestu óskir um góða og farsæla heimferð í dag.