Fara í efni

Góðir gestir frá Álaborg

Danski hópurinn að lokinni vel heppnaðri heimsókn
Danski hópurinn að lokinni vel heppnaðri heimsókn

Hópur 62ja grunnskólakennara, stjórnenda og ráðgjafa frá Álaborg í Danmörku er á Akureyri í þessari viku. Í gær var hópurinn í VMA og voru þessar myndir teknar af nokkrum þeirra snæða hádegisverð í skólanum.

Hildur Friðriksdóttir, sem annast erlend samskipti í VMA, segir að þessi ferð dönsku grunnskólakennaranna til Akureyrar, sem var styrkt af Erasmus+ styrkjakerfi ESB, hafi komið til í framhaldi af samstarfi VMA og skóla í Álaborg. Gert hafi verið upphaflega ráð fyrir mun færri þátttakendum en í ljós hafi komið að áhuginn á Akureyrarferð var svo mikill að þegar upp var staðið reyndust þátttakendurnir vera á sjöunda tuginn.

Hildur segir að hópurinn sé hingað kominn til þess að kynna sér ýmislegt varðandi kennslu í upplýsingatækni, nýsköpun og stafrænum lausnum. Hún segir að hópnum sé skipt í minni hópa, sem kynni sér m.a. Fab Lab Akureyri, sem er til húsa í VMA, annar hópur sé í forritun og skólar á þremur skólastigum verði heimsóttir – Háskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Hrafnagilsskóli, Giljaskóli og  Naustaskóli. Til þess að aðstoða við vinnunna og kennsluna í Fab Lab smiðjunni eru komnir til Akureyrar starfsmenn Fab Lab smiðja frá Ísafirði, Sauðárkróki, Hornafirði og Reykjavík.

Kennararnir Helga Björg Jónasardóttir og Íris Ragnarsdóttir, sem báðar hafa kennt nemendum í Fab Lab, munu kynna fyrir Dönunum hvernig þær nýta sér þessa tækni í kennslu.

Hildur segir virkilega ánægjulegt að taka á móti þessum stóra hópi frá Danmörku. Um ákveðin tímamót sé að ræða því slík erlend samskipti hafi meira og minna legið niðri frá því að Covid heimsfaraldurinn hófst fyrir tæpum tveimur árum. Hún segir að allar slíkar heimsóknir séu til þess fallnar að skapa ný og áhugaverð samskipti og segist vera nokkuð viss um að út úr þessari heimsókn komi ýmsir nýir fletir á samstarfi VMA og skóla og atvinnulífs í Álaborg.