Fara í efni  

Góðan daginn, faggi í Gryfjunni

Góðan daginn, faggi í Gryfjunni
Bjarni Snæbjörnsson í Gryfjunni. Mynd: HF

Gryfjan var þéttsetin í dag  þegar Bjarni Snæbjörnsson og Axel Ingi Árnason snertu strengi viðstaddra í heimildasöngleiknum Góðan daginn, faggi, sem þeir tveir og Gréta Kristín Ómarsdóttir standa að. Sýningin var sett upp í samstarfi við Þjóðleikhúsið og hefur verið sýnd þar og víða um land við miklar vinsældir.

Hér eru myndir sem Hilmar Friðjónsson tók í Gryfjunni í dag.

Verkið byggir á dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar, annars tveggja leikaranna í sýningunni. Í kynningu á verkinu á vef Þjóðleikhússins segir að í því leiti fertugur hommi skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann hafi fengið upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Eftir vandasaman leiðangur um innra líf sitt, fortíð og samtíma hafi hann rekist á rætinn hommahatara á óvæntum stað.

„Höfundar verksins eru hinsegin fólk sem öll ólust upp á landsbyggðinni, Bjarni Snæbjörnsson leikari frá Tálknafirði, Axel Ingi Árnason tónskáld úr Eyjafjarðarsveit og Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri frá Hrísey. Í sköpunarferli sýningarinnar ræddu höfundar jafnframt við ótal hinsegin manneskjur og stóðu reglulega fyrir opnum leiklestrum og kynningum í tengslum við Hinsegin daga og í samstarfi við Samtökin ‘78. Verkið tekst á við fyrirbæri eins og skömm og innhverfa fordóma með húmor og einlægni að vopni. Boðskapur sýningarinnar er sérstaklega aðkallandi nú, í ljósi þess bakslags sem hefur orðið hvað varðar hinseginfordóma, skaðlega orðræðu, ofbeldi og einelti gagnvart hinsegin fólki. Þörfin á fræðslu og opnu, einlægu samtali um þessi mál er brýn, enda skerða hinsegin fordómar frelsi og lífsgæði fólks,“ segir í kynningu á Góðan daginn, faggi á vef Þjóðleikhússins.


Getum við bætt efni síðunnar?

VERKMENNTASKÓLINN Á AKUREYRI

Skrifstofa VMA er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 08:15-12:10 og frá 12:30-15:00. Á föstudögum er opið frá kl 08:15-13:00.