Fara í efni

Góð reynsla af vináttuverkefninu Mentor

Vináttuverkefnið Mentor hefur verið í VMA í 11 ár.
Vináttuverkefnið Mentor hefur verið í VMA í 11 ár.

„Það hefur verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt að taka þátt í þessu,“ segir Heiðar Freyr Leifsson, nemandi á félagsfræðabraut VMA um Mentorverkefnið Vináttu sem hann hefur í vetur tekið þátt í ásamt rösklega tuttugu öðrum nemendum í VMA og MA.

Rekstur Mentorverkefnisins Vináttu hefur verið á höndum Velferðasjóðs barna á Íslandi en verkefnið hófst árið 2001. Í röskan áratug hafa nemendur á 3. og 4. ári í VMA tekið þátt í verkefninu. Mentor er alþjóðlegt hugtak sem oftast er notað yfir þroskaðri og reyndari einstakling sem gefur sér tíma til að hverfa frá sínum daglegu störfum yfir ákveðinn tíma til þess að aðstoða sér yngri og óreyndari einstakling á ýmsum sviðum. Hlutverk mentors er meðal annars að veita stuðning og góð ráð en einnig að vera fyrirmynd, félagi og trúnaðarvinur. Samband og samskipti mentors og einstaklings kallast „mentoring“. Mentorverkefnið Vinátta byggir á þeirri hugmyndafræði að samskipti barns og mentors séu jákvætt innlegg í líf barnsins og mentorinn verði barninu fyrirmynd og veiti því stuðning.

Hér á Akureyri taka sem þátt í verkefninu nemendur í VMA og MA undir handleiðslu fagfólks í báðum skólum. Ásdís Birgisdóttir, námsráðgjafi í VMA, segir að reynslan af Mentorverkefninu sé almennt mjög góð fyrir bæði framhaldsskólanemendur og grunnskólakrakkana en um er að ræða nemendur 4. bekkjar í grunnskólum Akureyrar. Grunnskólarnir velja þá nemendur sem taka þátt í verkefninu og mörgum tilfellum er um að ræða börn sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt uppdráttar félagslega og einnig eru dæmi um börn af erlendu bergi brotin sem hafa átt erfitt með að laga sig að íslensku samfélagi. Um er því að ræða pör sem samanstendur af mentor (framhaldsskólanemanum) og grunnskólabarni. Miðað er við að viðkomandi hittist að jafnaði einu sinni í viku og geri eitthvað skemmtilegt saman. Verkefnið hófst í október sl. og lýkur í apríl. Velferðasjóður barna greiðir hverjum mentor 10 þúsund krónur á önn sem hann nýtir til þess að greiða útlagðan kostnað, t.d. að fara saman í bíó, á kaffihús eða eitthvað annað.

„Ég hef farið með mínum grunnskólanema í t.d. bíó og sund. Auk þess að hittast með viðkomandi grunnskólabörnum höfum við mentorarnir og börnin reynt að hittast öll saman annað slagið og gera eitthvað skemmtilegt. Til dæmis hittumst við fyrir um tveimur vikum og unnum saman með ákveðið myndaþema,“ segir Heiðar Freyr Leifsson en þátttaka í mentorverkefninu gefur viðkomandi nemendum námseiningar í gegnum sérstakan áfanga í VMA.

Guðbjörg Þórarinsdóttir, nemandi á félagsfræðabraut VMA, er einnig þátttakandi í Mentorverkefninu. Hún sagðist hafa komið inn í verkefnið þegar aðeins var liðið á haustönnina vegna forfalla. „Ég sé ekki eftir að hafa farið í þetta verkefni, það virkar vel á mig,“ segir Guðbjörg og nefnir að hún hafi meðal annars farið með sínum grunnskólanema, sem er stúlka í Brekkuskóla, í keilu, bakaríið, fengið sér ís o.fl. „Og núna á fimmtudaginn hefur Leikfélag Akureyrar boðið okkur mentorunum að fara með krakkana á forsýningu á Lísu í Undralandi,“ segir Guðbjörg og bætir við að á nokkrum stofnunum á vegum Akureyrarbæjar sé frír aðgangur fyrir þátttakendur í Mentorverkefninu, t.d. í sund, á skauta og á skíði í Hlíðarfjalli.