Fara í efni

Góð reynsla af nýju heyrnarhlífunum

Þessar nýju heyrnarhlífar auðvelda mjög samskipti.
Þessar nýju heyrnarhlífar auðvelda mjög samskipti.

Eðli málsins samkvæmt er umtalsverður hávaði í vélasal byggingadeildar þegar trésmíðavélarnar eru í gangi. Á sama tíma og nemendurnir eru að læra á vélarnar – fræsara, sagir, hefla o.s.frv. – þurfa kennararnir auðvitað að koma skilaboðum til nemenda, kenna þeim hvernig eigi að vinna með þessar vélar, fara yfir öryggismálin o.fl.

Til þess að bregðast við þessu keypti VMA fyrir stuttu sextán heyrnarhlífar með sendibúnaði sem kennarar og nemendur eru með í kennslustundum í vélasalnum. Þessar heyrnarhlífar eru þeim eiginleikum gæddar að á þeim er hljóðnemi og því getur kennarinn auðveldlega komið skilaboðum til nemenda í gegnum búnaðinn. Hann slær tvær flugur í einu höggi, annars vegar verndar hann heyrn þeirra sem eru í vélasalnum og hins vegar eiga kennarar og nemendur auðvelt með að koma skilaboðum – fyrirspurnum og svörum – milli, þrátt fyrir hávaðann frá vélunum.

Heyrnarhlífarnar eru frá fyrirtækinu Dynjandi í Reykjavík sem hefur lengi lagt mikla áherslu á öryggisbúnað og hvers konar persónuhlífar. 

Þegar litið var inn í kennslustund í véltrésmíði hjá nemendum á annarri önn í grunndeild voru allir með heyrnartólin. Bragi Óskarsson kennari segir að þau hafi komið í síðustu viku og strax sé komin mjög jákvæð reynsla af þeim. Hávaðinn frá vélunum hafi gert það að verkum að hann hafi þurft að tala til nemenda á mjög háum nótum til þess að þeir heyrðu hvað hann segði. Afleiðingarnar hafi verið sú að hann hafi fundið að röddin hafi smám saman verið að gefa sig. En þessi heyrnartól segir Bragi að virki mjög vel, styrkur sendibúnaðarins sé mikill og því geti hann auðveldlega verið á ferðinni út um allan vélasalinn og verið í góðu sambandi við nemendur. Enginn þurfi lengur að tala á háu nótunum, hvorki nemendur né kennari. Byltingarkennd breyting til hins betra segir Bragi og bætir við að búnaðurinn geri það að verkum að nú þurfi allir að vera með hann til þess að eiga samskipti og í leiðinni verndi hann heyrn og raddheilsu kennara. Þetta sé því í senn öryggis- og vinnuverndarmál. Undir það tóku nemendur sem rætt var við, þeir sögðu tilkomu heyrnarhlífanna mikið og jákvætt framfaraskref.