Fara í efni

Gagnleg og góð ferð til Þrándheims

Textílnemendur frá VMA og Charlottenlund.
Textílnemendur frá VMA og Charlottenlund.

"Þetta var mjög gagnleg og góð ferð. Ég lærði margt nýtt um mismunandi hönnun,“ segir Inga Líf Ingimarsdóttir, nemandi á textílsviði listnámsbrautar VMA, en hún fór dagana 18.-23. september sl. ásamt fimm skólasystrum sínum í VMA og kennurunum Sólveigu Þóru Jónsdóttur og Sveinu Björk Jóhannesdóttur til Þrándheims í Noregi þar sem þær kynntu sér m.a. nám í framhaldsskólanum Charlottenlund, sem er á margan hátt sambærilegur við VMA. Þessi heimsókn var liður í samstarfi skólanna sem hefur verið töluvert mikill undanfarin ár.

Í ferðinni kynnti hópurinn sér bæði textílkennsluna í Charlottenlund og einnig var farið í heimsóknir í nokkur fyrirtæki sem koma að hönnun á einn eða annan hátt. Inga Líf segir hafa verið afar skemmtilegt og áhugavert að bæði kynnast kennslunni í skólanum og ekki síður að fara í fyrirtækjaheimsóknirnar. 

Inga Líf segist geta fullyrt eftir að hafa farið í þessa ferð að slíkar heimsóknir séu afar gagnlegar og víkki út sjónarhorn nemenda og gefi þeim nýjar og góðar hugmyndir. Sjálf segist hún útskrifast í desember nk. og nú þegar sé hún farin að huga að því að finna sér skóla erlendis, hún ætli að halda áfram námi á þessu sviði, helst horfi hún til búningahönnunar enda hafi hún bæði áhuga á leikhúsi og kvikmyndum.

Samstarf VMA og Charlottenlund mun halda áfram á næstunni því strax í næsta mánuði hyggjast textílnemendur og -kennarar frá Charlottenlund sækja VMA heim til þess að kynna sér námið hér. 

Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar í heimsókn VMA-nema og -kennara til Þrándheims.