Fara í efni

Glíman við hlífðargassuðuna

Síundarteknar æfingar í málmsuðu er lykilatriði í því að árangurinn verði góður. Það er með þetta ei…
Síundarteknar æfingar í málmsuðu er lykilatriði í því að árangurinn verði góður. Það er með þetta eins og annað að markviss þjálfun er það sem gildir.

Að sjálfsögðu er málmsuðutækni af ýmsum toga mikilvægur þáttur í lærdómi nemenda í grunndeild málmiðnaðar enda er nokkuð sama hvaða leið nemendur fara síðar í námi, málmsuðan nýtist þeim alltaf á einn eða annan hátt.

Á haustönn, fyrstu önninni í málmiðnaðarnáminu, læra nemendur grunninn í logsuðu og núna á vorönn halda þeir áfram og læra svokallaða hlífðargassuðu sem má segja að sé regnhlífarhugtak yfir suðuaðferðirnar MAG, MIG og TIK.

MIG er stytting á Metal Inert Gas en MAG er stytting á Metal Active Gas. TIG er stytting á Tungsten Inert Gas. Tungsten eða Wolfram er efnið sem rafskautið er gert úr, stundum blandað öðrum efnum. Inert þýðir „óvirkt“ og lýsir hlífðargasinu sem notað er við suðuferlið.

Þegar litið var í liðinni viku inn í kennslustund hjá grunndeildarnemum á málmiðnaðarbraut var Stefán Finnbogason kennari að leiðbeina þeim fyrstu skrefin í hlífðargassuðu. Áður en önnin verður á enda hafa nemendur fengið grunnþjálfun í framangreindum þremur suðuaðferðum.