Fara í efni

Glíma við forritunina

Ingólfur Sigfússon leiðbeinir nemendum.
Ingólfur Sigfússon leiðbeinir nemendum.
Núna á vorönn er boðið upp á umfangsmikinn níu eininga valáfanga í forritun í VMA og sitja hann tæplega tuttugu áhugasamir nemendur.

Núna á vorönn er boðið upp á umfangsmikinn níu eininga valáfanga í forritun í VMA og sitja hann tæplega tuttugu áhugasamir nemendur.

„Í þessum áfanga má segja að við séum að kynna forritun á víðum grunni fyrir nemendum og sýna þeim fram á að að það er hægt að gera ýmislegt annað í tölvunni en að spila tölvuleiki og horfa á myndbönd. Eftir að tölvubrautin í Háskólanum á Akureyri var lögð niður er ekkert markvisst tölvunám á Akureyri og að undangenginni þróunarvinnu tóku VMA og Stefna sig saman og ákváðu að bjóða upp á þetta nám,“ segir Ingólfur Sigfússon sem auk þess að kenna nemendum í VMA forritun er að aðalatvinnu forritari hjá akureyrska fyrirtækinu Stefnu hugbúnaðarhúsi, með aðsetur í Hrísey. Á sínum tíma lauk hann námi í margmiðlun frá Margmiðlunarskólanum og tók hluta af tölvunarfræðinámi í Háskólanum á Akureyri en er nú að bæta við sig diplomanámi í Háskólanum í Reykjavík í kerfisfræði í fjarnámi. Það er því í mörg horn að líta hjá Ingólfi.

„Það er klárlega mikils virði að fjölga hér á svæðinu fólki sem hefur þekkingu á þessu sviði og það er gaman að finna hversu áhugasamir nemendurnir eru.
Vefforritun er grunnurinn í því sem við erum að kenna. Við förum í undirstöðuatriðin til þess að nemendur geti sett upp vefsíður. Við erum núna að vinna með JavaScript og síðan eigum við eftir að fara í dýpri forritun sem er á "server" og einnig förum við í gagnagrunnsvinnslu þar sem búið verður til kerfi sem skrifað verður inn í gagnagrunn,“ segir Ingólfur og bætir við að áfanginn sé viðamikill. „Já, þetta er yfirgripsmikill níu eininga áfangi. Við vinnum með verkefni fjóran og hálfan tíma í senn, tvisvar í viku – á þriðju- og fimmtudagsmorgnum - og í stundaskrá eru nemendur með þar að auki tíma til þess að hlusta á fyrirlestra sem þeir sækja á netinu um þetta efni. Í verkefnatímunum eru síðan lögð fyrir verkefni sem nemendur eiga að hafa tileinkað sér í þessum fyrirlestrum. Þetta er því mikil vinna og það er margt að læra. Hér reynir mikið á rökhugsun og menn finni smám saman þá leið sjálfir sem best er til þess fallin að leysa verkefnið. Að loknum þessum áfanga trúi ég að nemendur geti sett upp tiltölulega einfaldar vefsíður og þeir hafi jafnframt góða vitneskju um hvað þetta snýst. Ég held að þetta sé almennt séð mjög góður grunnur fyrir frekari nám á þessu sviði, ef nemendur hafa hug á því.  
Þessir nemendur eru mjög áhugasamir og duglegir að læra það sem við erum að kenna þeim. Bakgrunnur þeirra er nokkuð mismunandi, sumir hafa lært einhverskonar forritun en aðrir lítið sem ekkert.  Það er virkilega gaman að kenna nemendum þegar þeir eru svona áhugasamir um að læra og tileinka sér hlutina,“ segir Ingólfur Sigfússon.